Innlent

Þrjú dæmd fyrir að flytja inn BMW fullan af kókaíni

Árni Sæberg skrifar
 Eivydas Laskauskas er meðal þeirra þriggja sem hlutu dóma í Héraðsdómi Reykjaness í dag.
Eivydas Laskauskas er meðal þeirra þriggja sem hlutu dóma í Héraðsdómi Reykjaness í dag. Vísir/Vilhelm

Þau Eivydas Laskauskas, Kamile Radzeviciute og Egidijus Dambraukskas, sem öll eru frá Litáen, hafa þriggja ára og sex mánaða fangelsisdóma fyrir innflutning á miklu magni kókaíns, sem komið hafði verið fyrir inni í BMW-bíl.

Þau voru ákærð fyrir innflutning á 5,7 kílóum af kókaíni sem falin voru í BMW-bíl sem fluttur var frá Íslandi til Litáen og aftur til Íslands með flutningsskipi. Vísir fjallaði um aðalmeðferð málsins, sem fór fram þann 1. desember síðastliðinn. 

Almennt skal kveða upp dóm innan fjögurra vikna frá lokum aðalmeðferðar en það var ekki gert fyrr en í dag, heilum átta vikum frá lokum aðalmeðferðar. Ekki liggur fyrir hvað olli töfinni. Hafi dómur ekki verið kveðinn upp innan fjögurra vikna skal það flutt á ný, nema dómari og aðilar telji það óþarft. Ekki var talin þörf á að endurflytja málið.

Niðurstaða Héraðdóms Reykjaness var að dæma þau Eivydas, Kamile og Egidijus öll í þriggja ára og sex mánaða óskilorðsbundið fangelsi. Þá voru þau dæmd til að greiða allan sakarkostnað um 3,3 milljónir króna á mann, auk 2,6 milljóna króna í sameiningu.

Þá voru þau dæmd til að sæta upptöku á öllu kókaíninu, BMW-bílnum og sex farsímum.


Tengdar fréttir

Með lögregluna á hælunum með fullan BMW af kókaíni

Tveir karlmenn og ein kona hafa verið ákærð fyrir innflutning á 5,7 kílóum af kókaíni sem falin voru í BMW-bíl sem ferðaðist frá Íslandi til Litáen og aftur til Íslands með flutningsskipi. Fólkið beið í fimm daga áður en það reyndi að nálgast efnin í bílnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×