Mbappé með tvennu í sjöunda sigri Real í röð

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hættir ekki að skora.
Hættir ekki að skora. EPA/Biel Alino

Real Madríd hefur nú unnið sjö leiki í röð í öllum keppnum. Liðið lagði nýliða Levante 4-1 á útivelli í La Liga, efstu deild spænska fótboltans.

Xabi Alonso og lærisveinar hans hafa byrjað tímabilið frábærlega. Í kvöld voru nýliðar Levante sóttir heim og leyfði Alonso sér að hrófla örlítið við liðinu. Til að mynda voru þeir Jude Bellingham, Eduardo Camavinga, Dani Carvajal, Éder Militão, Rodrygo og Aurélien Tchouaméni allir á varamannabekknum.

Það kom ekki að sök í kvöld þar sem niðurstaðan var gríðarlega öruggur sigur gestanna í Real.

Vinícius Júnior hefur leyft Kylian Mbappé að einoka fyrirsagnirnar undanfarið en í kvöld var það Brasilíumaðurinn sem kom gestunum frá Madríd yfir. Hann lagði svo upp annað markið en þar var að verki argentíska undrabarnið Franco Mastantuono.

Staðan var 0-2 í hálfleik en í upphafi þess síðari minnkuðu heimamenn muninn. Það sló Real ekki út af laginu og bætti Mbappé tveimur mörkum við á þriggja mínútna kafla stuttu síðar. 

Sá franski hefur nú skorað sjö mörk og gefið eina stoðsendingu í sex deildarleikjum á tímabilinu. Eftir fjórða mark gestanna róaðist leikurinn talsvert og urðu mörkin ekki fleiri. 

Með sigrinum nær Real Madríd fimm stiga forystu á Barcelona sem á þó leik til góða. Real með 18 stig að loknum sex leikjum en Barcelona 13 stig að loknum fimm. Real mætir nágrönnum sínum í Atlético í næstu umferð. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira