Fótbolti

Neymar hneykslaður: „Raphinha í fimmta sæti er of mikið grín“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Raphinha og Neymar spiluðu saman með brasilíska landsliðinu á HM 2022.
Raphinha og Neymar spiluðu saman með brasilíska landsliðinu á HM 2022. getty/Zhizhao Wu

Brasilíski fótboltamaðurinn Neymar gat ekki orða bundist þegar hann sá hvar landi hans, Raphinha, endaði í kosningunni um besta fótboltamann heims.

Raphinha varð í 5. sæti í Gullbolta-kosningunni en Ousmané Dembélé, leikmaður Paris Saint-Germain, hreppti hnossið í fyrsta sinn. Verðlaunin voru veitt í gær.

Raphinha átti frábært tímabil með Barcelona í fyrra og setti met með því að koma með beinum hætti að 21 marki í Meistaradeild Evrópu. Börsungar komust í undanúrslit keppninnar en unnu spænsku úrvalsdeildina og spænsku bikarkeppnina.

Eftir að úrslit Gullboltans höfðu verið kunngjörð skrifaði Neymar á Instagram: „Raphinha í 5. sæti er of mikið grín.“

Barcelona keypti Raphinha frá Leeds United fyrir þremur árum. Hann lék sinn 150. leik fyrir félagið um helgina. Í þessum 150 leikjum hefur hann skorað 57 mörk.

Neymar lék á sínum tíma með Barcelona en er núna hjá Santos í heimalandinu. Hann varð tvisvar sinnum í 3. sæti í kjörinu fyrir Gullboltann (2015 og 2017).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×