Innlent

Sækist eftir for­mennsku í SI

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Þorsteinn Víglundsson hefur sagt skilið við sinn gamla flokk Viðreisn, og vill verða formaður Samtaka iðnaðarins.
Þorsteinn Víglundsson hefur sagt skilið við sinn gamla flokk Viðreisn, og vill verða formaður Samtaka iðnaðarins. Facebook

Þorsteinn Víglundsson, fyrrverandi þingmaður, ráðherra og varaformaður Viðreisnar og forstjóri Eignarhaldsfélagsins Hornsteins ehf sækist eftir embætti formanns Samtaka iðnaðarins.

Í færslu sem Þorsteinn birtir á samfélagsmiðlum í morgun greinir hann frá framboði sínu til formanns Samtaka iðnaðarins í aðdraganda Iðnþings sem fer fram þann 5. mars næstkomandi.

Í færslunni hnýtir hann meðal annars í evrópskt regluverk en líkt og kunnugt er hefur Viðreisn verið sá flokkur sem talað hefur hvað ötulast fyrir því að Ísland gangi í Evrópusambandið.

„Við eyðum árum og áratugum í undirbúning raforkuöflunar og opinberra framkvæmda sem þvælast í tímafrekum skipulagsferlum og endalausum kærumálum. Við mætum íþyngjandi gullhúðun evrópsks regluverks og ófyrirsjáanleika og geðþótta eftirlitsstofnana í framfylgni þess. Þetta þarf ekki að vera svona flókið.“ skrifar Þorsteinn meðal annars í færslunni. 

Hann segir jafnframt að krísur, líkt og nú séu uppi í alþjóðasamfélaginu þar sem óvissa hefur aukist og tollum fjölgað svo fátt eitt sé nefnt, gefi ærið tilefni til breytinga.

Í tilkynningu um framboð Þorsteins segir meðal annars að hann hafi verið meðal stofnenda Samáls, Samtaka íslenskra álframleiðenda og framkvæmdastjóri 2010-2013, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins 2013-2016, alþingismaður 2016-2020 og félagsmálaráðherra árið 2017. Frá 2020 hefur Þorsteinn verið forstjóri Eignarhaldsfélagsins Hornsteins, sem rekur BM Vallá og Björgun-Sement.

Þorsteinn sat á þingi fyrir Viðreisn árin 2016 til 2020 og gegndi embætti félags- og jafnréttismálaráðherra fram að óvæntum alþingiskosningum árið 2017, þegar Björt framtíð sleit stjórnarsamstarfi við Viðreisn og Sjálfstæðisflokkinn. 

Þorsteinn var endurkjörinn á Alþingi í kosningunum 2017 en sat ekki allt kjörtímabilið þar sem hann hætti þingmennsku og hóf störf sem forstjóri Hornsteins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×