Innlent

Hafi brotist inn til föður barns­móður sinnar og reynt að myrða hann

Árni Sæberg skrifar
Héraðsdómur Reykjavíkur mun dæma í málinu.
Héraðsdómur Reykjavíkur mun dæma í málinu. Vísir/Vilhelm

Karlmaður hefur verið ákærður fyrir tilraun til manndráps, með því að hafa stungið föður barnsmóður sinnar ítrekað eftir að hafa brotist inn til hans að næturlagi í október í fyrra.

Í ákæru á hendur manninum segir að hann hafi farið inn á heimili mannsins og inn í svefnherbergi hans, þar sem hann lá sofandi í rúmi sínu, og veist að honum og stungið hann endurtekið með hnífi í höfuð og líkama og eftir að hann vaknaði og náði að standa upp, haldið atlögunni áfram með hnífi og/eða kýlt með krepptum hnefum í búk hans.

Afleiðingar þess hafi verið að maðurinn hlaut um eins sentimetra sár á utanverðri hægri kinn, sem saumað var með þremur sporum, bólgu á hægri kinn og fjögur sár á hægri öxl, sem saumuð voru alls með fimm sporum.

Í ákærunni eru tengsl mannanna ekki tilgreind en í úrskurði Landsréttar um gæsluvarðhald yfir manninum, sem birtur var á föstudag en fjarlægður af vef réttarins skömmu síðar, kemur fram að árásarþoli sé faðir barnsmóður árásarmannsins. 

Með gervibyssu í buxnastrengnum

Þá segir í ákærunni að maðurinn sæti ákæru fyrir vopnalagabrot, með því að hafa umrætt kvöld borið á almannafæri, án umbúða og falin innanklæða í aftanverðum buxnastreng, eftirlíkingu af skotvopni, en hann hafi vísað lögreglu á skotvopnið, í lögreglubifreið, eftir að hafa verið handtekinn.

Í úrskurði Landsréttar sagði að maðurinn hefði fundist skammt frá heimili árásarþola og verið handtekinn. Þá hafi hann verði grímuklæddur og klæddur sokkum yfir skóm sínum, sem hafi vakið athygli lögreglumanna.

Krefst upptöku á óskilgreindum vökva

Ákæruvaldið krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er þess krafist að hann sæti upptöku á hnífsskafti, hnífsblaði, tveimur stykkjum af Tamoxfeno Cinfa 20 milligramma töflum, einu stykki af oxyNorm 5 milligramma töflu, 20 millilítrum af óskilgreindum glærum vökva og eftirlíkingu af skotvopni.

Loks segir í ákærunni að fyrir hönd brotaþola sé gert krafa upp á fimm milljónir króna í miskabætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×