Skoðun

Skamm! (-sýni)

Kristján Fr. Friðbertsson skrifar

Á gróðursnauðu Íslandi er lykilatriði að binda og bæta sem hraðast jarðveginn sem annars ýmist fýkur á haf út, eða endar í lungum okkar. Einnig er mikið rætt um bindingu kolefnis, t.d. í formi endingargóðs plöntumassa. Skiptir þar mestu að binda sem mest af kolefni hratt, samhliða því að draga úr losun þess. Okkar stórkostlega en fátæka flóra hentar því miður ekki alltaf best til verksins.

Langalgengustu plönturnar hér eru þörungar, á eftir þeim mosar. Þökk sé þeim er áætlað að við náum einhvers konar gróðurþekju á u.þ.b. 20-25% af landinu. Mikið af því þó afar viðkvæmt, hægvaxta og lengi að jafna sig eftir rask. Á hinum enda hæðarvaxtar og lífmassa/m2 finnum við tré, runna og kjarr, sem telja um 2% af þessu. Ræktaðir skógar þar af um 1%. Flest önnur lönd hafa ekki bara meiri gróðurþekju, heldur einnig mun ríkulegri innlenda flóru, sem þau geta þá valið plöntur úr sem henta best hverju sinni.

Svo virðist sem til sé óskhyggjuhópur, sem fussi og sveii í kaffibollann vegna aðgerða til kolefnisbindingar, en finnst gott að vita í hjarta sér að kolefni sé einhvers staðar að bindast. Hópur sem kvartar yfir aðgerðaleysi í loftslagsmálum, en kvartar enn hærra ef:

  • aðgerðirnar hafa áhrif á útsýni þeirra, eða nánasta umhverfi. Bölsótist yfir sjónrænum áhrifum, jafnvel ef aðgerðin er neðanjarðar.
  • þær krefjast einhvers konar tímabundins rasks, óháð því hvort neikvæð áhrif séu vart mælanleg til lengri tíma, en jákvæð áhrif óumdeild.
  • fjármagn tengist aðgerðunum, sérstaklega utanaðkomandi og/eða einkafjármagn, hvað þá ef hagnaður gæti myndast.

Þar virðist ekki vera markmiðið að horfa til þess hvað skilar mestum árangri, nema það falli að fyrirfram gefnum niðurstöðum. Ef aðgerðin felur í sér plöntur, þá þurfa þær plöntur að hafa sjálfar komið sér til landsins fyrir hundruðum ára (hvort sem þær henta til verksins eður ei), annars skal frekar fjarlægja þær en að nýta þær í baráttunni. Mögulega gætir hér misskilnings í ljósi þess hve algengt er erlendis að hægt sé að nýta innlendar tegundir en ná samt jafngóðum árangri.

Þeir sem eru á móti aðgerðum til kolefnisbindingar þurfa því litlar áhyggjur að hafa, því auðvitað er flestum ljóst að sé tekið tillit til þessa mun ekkert gerast. Eða í besta falli allt of hægt og allt of seint. Sem betur fer eru þessar skoðanir ekki allra.

Án afláts

Hér má í lokin nefna kolefnisskatta og -jöfnun. Hvata til fyrirtækja víða um heim að draga úr sinni losun og sjá samhliða til þess að fjármagn rati í raunverulegar aðgerðir, sem hafi raunveruleg áhrif á vandamálið.

Ein leið er að greiða til sérstaklega vottaðra aðila um ræktun nýskóga með bindingu til margra áratuga.

Þegar valkostirnir eru: hægfara breytingar í losun en samhliða ýmist mikil skógrækt eftir ströngustu ferlum sem mótvægisaðgerð eða ekkert, myndu margir kjósa að fá þó a.m.k. mótvægisaðgerðina. Á Íslandi komust þó einhverjir að gagnstæðri niðurstöðu og vel meinandi fólk var dregið á villigötur.

Gripið var til samlíkingar við aflátsbréf og reynt að hvetja fólk frá kolefnisjöfnun, ekki síst ef skógrækt kom við sögu. Samlíkingin gengur auðvitað ekki upp, því hér kemur raunverulega eitthvað í staðinn fyrir peninginn. Mótvægisaðgerð gegn vandanum sem um ræðir. Afrakstur upphrópana um aflátsbréfin var einfaldlega minni pressa á fyrirtækin að fjármagna mótvægisaðgerðir, sérstaklega á hinu gróðursnauða Íslandi, sem fýkur ennþá burt. Enn eitt skrefið afturábak.

Höfundur er plöntunörd.




Skoðun

Sjá meira


×