Íslenski boltinn

KSÍ opið fyrir sjálf­krafa bönnum en reglubreyting ekki í vinnslu

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Gul spjöld gefa ekki sjálfkrafa bann, en rauð spjöld setja menn í sjálfkrafa bann. 
Gul spjöld gefa ekki sjálfkrafa bann, en rauð spjöld setja menn í sjálfkrafa bann. 

Í dag líkt og aðra þriðjudaga kemur aga- og úrskurðanefnd KSÍ saman á fundi, þar sem leikmenn eru dæmdir í leikbann. Þetta ósjálfvirka fyrirkomulag hefur verið gagnrýnt mikið og sagt í engum takti við nútímann. Lögfræðingur KSÍ segir engan í Laugardalnum á móti því að gera bönnin sjálfvirk og að með haustinu komi nýtt tölvukerfi sem gæti haldið utan um það. Stjórnin sé hins vegar ekki að vinna að breytingum, það þyrfti að vera gert með reglugerðarbreytingu á ársþingi KSÍ.

Mega spila þrátt fyrir spjaldasöfnun

Mýmörg dæmi eru um að leikmenn eigi að vera komnir í leikbann vegna uppsafnaðra gulra spjalda, en fái að spila næsta leik á eftir vegna þess að hann lendir á undan þriðjudagsfundinum.

Afturelding mátti til dæmis spila þeim Hrannari Snæ Magnússyni og Bjarti Bjarma Barkarsyni í leik gegn KR þarsíðasta mánudag, þrátt fyrir að þeir hafi báðir fengið sitt fjórða gula spjald í leik gegn Vestra á miðvikudeginum áður. 

Sömuleiðis mátti Stjarnan spila Guðmundi Baldvin Nökkvasyni gegn Víkingi á sunnudag, þrátt fyrir að hann hafi fengið sitt fjórða gula spjald gegn Vestra síðasta miðvikudag. Guðmundur fékk svo sitt fimmta spjald í Víkingsleiknum en verður ekki úrskurðaður í bann fyrr en á eftir, þegar aga- og úrskurðarnefnd kemur saman.

Guðmundur Baldvin hló að gulu spjöldunum og spilaði samt. Hann fékk svo annað gult spjald í næsta leik. vísir / diego

Guðmundur mætti spila í kvöld, ef Stjarnan ætti leik, vegna þess að bannið mun ekki taka formlega gildi fyrr en í hádeginu á morgun.

Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke vakti athygli á því í pistli sínum „Getum við stigið inn í nútímann?“ sem birtist á Fótbolti.net í gær.

Þá er einnig áhugavert að liðsfélagi Guðmundar, Þorri Mar Þórisson, fékk rautt spjald í sama leik gegn Víkingi og var sjálfkrafa úrskurðaður í bann. Sama gildir ekki um uppsöfnuð gul spjöld og rauð spjöld. 

KSÍ með nýtt kerfi og ekki á móti breytingum

Vísir ræddi við lögfræðing KSÍ, Axel Kára Vignisson, sem segir breytingu á þessum reglum ekki standa til og sú breyting þyrfti að fara fram á ársþingi KSÍ. Stjórnin megi vissulega gera reglugerðarbreytingar en venjan hafi verið sú að stórar breytingar séu gerðar á ársþinginu. 

Þá segir Axel einnig að sjálfkrafa bönn vegna uppsafnaðra spjalda séu ekki framkvæmanleg að svo stöddu, en nýtt tölvukerfi verði tekið upp í haust. 

„Við erum að taka upp nýtt kerfi í haust, sem ég held og mér sýnist að gæti séð um þetta, en auðvitað þarf reglugerðarbreytingu til og það hefur í gegnum tíðina yfirleitt verið á ársþinginu. Félögin hafa það í sinni hendi að breyta reglunum.

Auðvitað breytir stjórnin líka reglum af og til en það hefur verið lenskan hjá okkur að stærri breytingar hafa verið á þinginu.

Það er ekkert formlega farið af stað en auðvitað er bara allt til skoðunar sem getur verið til bóta“ segir Axel.

Ársþing KSÍ verður haldið í febrúar á næsta ári, þannig að það yrði í fyrsta lagi á næsta tímabili sem bönnin yrðu sjálfvirk.

„Þetta er eitthvað sem þarf að skoða fyrir næsta tímabil, hvort það sé vilji til að breyta þessu og þá held ég að það sé enginn hérna hjá KSÍ sem muni standa í vegi fyrir því“ segir Axel.

Axel Kári Vignisson tók til starfa sem lögfræðingur KSÍ fyrr á árinu.KSÍ



Fleiri fréttir

Sjá meira


×