Innlent

Kærður fyrir að taka mynd­band af vett­vangi slyss

Jón Þór Stefánsson skrifar
Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Umferðarslys varð í Laugardal í Reykjavík í gærkvöld eða nótt. Þar skemmdust þrír bílar og einn þeirra varð óökufær eftir á og var sá dreginn af vettvangi. Engin slys urðu á fólki.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en þar segir einnig frá því að ökumaður hafi verið kærður fyrir að nota farsíma undir stýri, en hann er sagður hafa ekið fram hjá vettvangi slyssins með síma á lofti og tekið myndskeið af því sem hafði gerst.

Af dagbókinni að dæma var í nógu að snúast hjá lögreglunni í málum tengdum umferðinni.

Í Laugardal var líka tilkynnt um umferðarslys þar sem bíl var ekið í gegnum grindverk.

Í Kópavogi var ökumaður kærður fyrir að aka á 111 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er fimmtíu kílómetrar á klukkustund. Sá var sviptur ökuréttindum vegna málsins. Og í Grafarholti var ökumaður kærður fyrir að aka á 149 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er áttatíu.

Í Breiðholti var lögreglu tilkynnt um bíl sem var úti í móa. Það reyndist vera eftir umferðarslys, og var ökumaður bílsins aðstoðaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×