Innlent

Björg sökuð um brot á kosningareglum Við­reisnar

Agnar Már Másson skrifar
Fjölmiðlakonan Björg Magnúsdóttir býður sig fram í leiðtogaprófkjöri Viðreisnar sem haldið er í dag. Niðurstöður eiga að liggja fyrir um klukkan 19 í kvöld.
Fjölmiðlakonan Björg Magnúsdóttir býður sig fram í leiðtogaprófkjöri Viðreisnar sem haldið er í dag. Niðurstöður eiga að liggja fyrir um klukkan 19 í kvöld.

Björg Magnúsdóttir, einn fjögurra frambjóðenda í leiðtogaprófkjöri Viðreisnar í Reykjavík, er sökuð um að hafa brotið kosningareglur flokksins með því að hafa samband við flokksmenn sem væru bannmerktir í gagnagrunni flokksins og ekki mætti hafa samband við.

Bjarki Fjalar Guðjónsson, sem er í kjörstjórn flokksins, staðfestir í samtali við Vísi að kjörstjórn hafi borist ábendingar um að frambjóðandi nokkur hefði sent SMS skilaboð á flokksmenn sem væru bannmerktir í félagatali flokksins, sem þýðir að ekki megi hafa samband við viðkomandi í kosningabaráttu.

„Þetta er til athugunar hjá kjörstjórn og við erum að athuga hvort og hvernig brugðist verður við,“ bætir Bjarki við en hann kvaðst ekki geta tjáð sig frekar.

Bjarki vildi ekki gefa upp nafn frambjóðandans sem um ræðir en samkvæmt heimildum fréttastofu varða ábendingarnar Björgu Magnúsdóttur og stuðningsmannahóp hennar. 

Skilaboð sem bárust bannmerktum flokksmanni frá Björgu Magnúsdóttur upp úr hádegi í dag.Aðsend

Einn flokksmaður sendi kjörstjórn kvörtun og sagðist hafa fengið bæði símhringingu og smáskilaboð frá Björgu þrátt fyrir að vera bannmerktur í gagnagrunni flokksins, samkvæmt tölvupóstsamskiptum sem Vísir hefur undir höndum.

Í svörum kjörstjórnar til kvartandans sagði að um hugsanlegt brot á kosningareglum væri að ræða. Kjörstjórn hefði haft samband við framboðið og óskað eftir því að símhringingum og sms-skilaboðum til bannmerktra flokksmanna verði tafarlaust hætt.

Frambjóðendur til prófkjörs hafa samkvæmt reglum félagsins allir aðgang að gagnagrunnum Viðreisnar sem innihalda nöfn, símanúmer og heimilisföng félagsmanna en einnig hugsanlegar bannmerkingar í samræmi við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Úr reglum um röðun á framboðslista Viðreisnar

Gr. 10.3 Frambjóðendur til prófkjörs skulu allir hafa sama aðgang að gagnagrunnum Viðreisnar, þ.e. nafn, símanúmer, heimilisfang og mögulegar bannmerkingu félaga í Viðreisn, í samræmi við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsingar, nr. 90/2018, og persónuverndarstefnu flokksins. Verði frambjóðendum veittur aðgangur að félagaskrá Viðreisnar í sínu kjördæmi eða sveitarfélagi skulu þeir undirrita vinnslusamning um meðferð persónuupplýsinga og fá kynningu á þeim heimildum, skyldum og ábyrgð sem í honum felast frá flokknum. Njóti frambjóðendur aðstoðar utanaðkomandi aðila í samskiptum við félagsmenn á grundvelli upplýsinga úr félagaskrá skulu frambjóðendur láta viðkomandi aðila undirrita trúnaðaryfirlýsingu og gæta þess að hvergi sé vikið frá skilyrðum laga og persónuverndarstefnu Viðreisnar.

Ekki náðist í Björgu Magnúsdóttur vegna málsins en hún býður sig fram í leiðtogaprófkjöri flokksins. Þegar hafa um 60 prósent þeirra þrjú þúsund Viðreisnarmanna á kjörskrá greitt atkvæði, samkvæmt upplýsingum frá kjörnefnd.

Vísir verður í beinni frá kosningavöku Viðreisnar í kvöld en úrslit eiga að liggja fyrir um klukkan 19.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×