Skoðun

Af hverju þurfa börn að borga í strætó?

Sanna Magdalena Mörtudóttir skrifar

Ég trúi því að lausnirnar við vandamálum dagsins í dag sé að finna í félagshyggju, þar sem lífsgæði og réttlæti eru í forgrunni. Ég trúi því að við eigum að leggja fram til samfélagsins út frá getu. Þess vegna finnst mér óréttlátt að ríkasta fólkið greiði ekki eins og aðrir í okkar sameiginlega sjóði.

Launafólk, öryrkjar og jafnvel foreldrar í fæðingarorlofi greiða útsvar af tekjum sínum. Útsvar er skattur sem rennur til sveitarfélaga og er ætlað að standa undir margvíslegri þjónustu. Þeir sem lifa á fjármagnstekjum þurfa ekki að greiða útsvar af þeim tekjum. Það finnst mér bæði skrýtið og ósanngjarnt.

Við búum í stéttskiptu samfélagi þar sem hin ríkustu eru varin en hin tekjulægri bera þungar fjárhagslegar byrðar. Ef hlutirnir væru eðlilegir myndi allra ríkasta fólkið greiða aðeins meira til samfélagsins þannig að við gætum boðið upp á hluti eins og frítt í strætó fyrir öll börn en í dag þurfa börn að greiða fyrir að ferðast með strætó. Það finnst mér skrýtið.

Börn hafa ekki tekjur og eiga ekki að greiða gjöld. Þess vegna er mjög ánægjulegt að samstarfsflokkarnir í borgarstjórn séu að undirbúa það að gjaldfrjálst verði í strætó fyrir reykvísk ungmenni á grunnskólaaldri.

Samstarfsflokkarnir leggja til að gjaldtaka í strætisvögnum, hvort sem er á vegum Strætó bs. eða Almenningssamgangna höfuðborgarsvæðisins ohf., verði felld niður vegna reykvískra barna á grunnskólaaldri. Það gildi þangað til grunnskólagöngu lýkur. Miðað er við að þetta taki gildi eigi síðar en 1. maí á þessu ári.

Þessi tillaga verður lögð fram á borgarstjórnarfundi 3. febrúar. Hægt verður að fylgjast með umræðunni í Ráðhúsi Reykjavíkur og rafrænt í gegnum vefsíðu borgarinnar. Þar má einnig finna frekari upplýsingar um þessa tillögu.

Svo skulum við spyrja okkur: Af hverju búum við í samfélagi þar sem það þykir eðlilegra að rukka börn fyrir þjónustu frekar en ríkasta fólkið?

Höfundur er forseti borgarstjórnar.




Skoðun

Sjá meira


×