Skoðun

Á­stæða góðs árangurs í hand­bolta

Lárus Bl. Sigurðsson skrifar

Frábær árangur íslenska landsliðsins í handbolta veitir okkur Íslendingum ómælda gleði. Þjóðarstolt, samhug og spennu. Árangur í íþróttum hjá þjóðum er sameiningarafl.

Síðan eigum við þrjá þjálfara í undanúrslitum á þessu móti, sem er heimsmet, en ef mér skjátlast ekki þá hefur það ekki gerst áður að þrír þjálfarar frá sama landinu berjist um stóran titil landsliðs í handbolta karla.

Á meðan við Íslendingar hvetjum okkar menn áfram þá má ekki gleyma því hver rótin er að þessum árangri. Það eru íþróttafélögin á Íslandi sem eru lykillinn. Hjá þeim er unnið gríðarlega öflugt starf, það öflugt að eftir því er tekið um allan heim.

Íþróttafélögin á Íslandi eru stofnuð og að miklu leiti rekin af sjálfboðaliðum. Það er þar sem afreksfólkið okkar verður til. Allir þeir sem koma að því starfi eiga hrós skilið, hvort sem um er að ræða iðkendur, foreldra, þjálfara, liðstjóra, dómara, stjórnarmenn, starfsmenn, sjálfboðaliða á leikjum og mótum eða hvaða starfi sem fólk gegnir. Án þeirra væru strákarnir okkar ekki komnir í undanúrslit. Og það á við um fleiri íþróttagreinar, bæði karla og kvenna á undanförnum árum. Og þegar við höfum fyrirmyndir sem ná árangri, þá eykst áhuginn á íþróttum. Og um mikilvægi íþrótta þarf ekki að fjölyrða.

Það er því dapurlegt að vita það að fjárhagstaða margra íþróttafélaga og sérsambanda, þar á meðal HSÍ, stendur á brauðfótum. Við þurfum að tryggja það að forgangsraða fjármunum og athygli til íþrótta og æskulýðsmála. Það er hægt að spara annarstaðar og af nægu er að taka þar. Stöndum með strákum og stelpum framtíðarinnar.

Áfram íþróttir, áfram Ísland.

Höfundur gefur kost á sér á lista Miðflokksins í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík.




Skoðun

Sjá meira


×