Skoðun

Nýja kvóta­kerfið hennar Hönnu Katrínar

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir skrifar

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra heldur því fram að frumvarp hennar til laga um lagareldi sé ekki kvótakerfi. Annað hvort skilur hún ekki eigið frumvarp eða að hún er einfaldlega að segja ósatt.

Í frumvarpinu skiptir ekki máli hvaða orð eru notuð, heldur aðeins hvernig frumvarpið mun virka í reynd verði það að lögum!

Ok…

Frumvarpið setur hámark á heildarframleiðslu (lífmassa) eftir svæðum.

Þeim lífmassa er síðan skipt upp og úthlutað til einstakra fyrirtækja, sem ekki mega fara fram úr sínum hluta.

Nýir aðilar komast ekki að: nema með nýrri úthlutun ríkisins.

Þetta er einfaldlega, kvótakerfi: ríkið ákveður hver má framleiða, hversu mikið og hvar.

Að halda því fram að þetta sé ekki kvótakerfi vegna þess að orðið „kvóti“ er ekki notað,er einfaldlega ekki satt!!!

Þegar framleiðsla er hámarksett, henni skipt upp og úthlutað af stjórnvöldum, er verið að búa til kvóta — sama hvað kerfið er kallað.

Réttmæt er sú gagnrýni sem fram hefur komið að frumvarpið muni í reynd þjóna hagsmunum fárra stórra aðila, jafnvel aðeins fjögurra fyrirtækja í sjávarútvegi sem sum eru að hluta í eigu erlendra aðila.

Ef úthlutun mun byggjast á núverandi stöðu í íslenskum sjávarútvegi eru það þeir aðilar sem þegar eru inni í kerfinu sem hagnast. Smærri fyrirtæki og nýir aðilar verða útilokaðir nema með pólitískri ákvörðun eða kaupum á réttindum.

Ef fólk vill skilja hvers vegna frumvarpið er sett fram með þessum hætti, ætti það jafnframt að spyrja: hverjir munu hagnast? “Follow the money!”

Hvaða fáu hendur munu njóta góðs af?

Þá verður skýrt fyrir hvern ráðherrann, Hanna Katrín Friðriksson, er raunverulega að vinna! Hún er samt á launum hjá okkur,muniði!

Í landi með langa og sára reynslu af kvótakerfum ættu stjórnvöld að tala um sjávarútvegsmál svo allir landsmenn skilji.

Í landi með langa og sára reynslu af kvótakerfum er eðlilegt að krefjast heiðarleika af stjórnmálamönnum þegar auðlindir okkar eru undir.

Í landi með langa og sára reynslu af kvótakerfum munu Íslendingar vitanlega hafna þessu frumvarpi verði þeir yfirleitt spurðir.

Ath! Frumvörp verða að lögum. Lagagreinar vega þyngra en yfirlýsingar ráðherra í fjölmiðlum.

Andvaraleysi okkar er því ábyrgðarleysi.

P.s Það er frábært, skiljanlegt og mikilvægt að erlendir aðilar gagnrýni þetta frumvarp Hönnu Katrínar og jákvæð sönnun þess að margir fylgjast með þróun umhverfismála hér. Ekki veitir okkur af stuðningnum. Það fyrirfinnast nefnilega manneskjur og fyrirtæki í heiminum sem bera kennsl á raunveruleg verðmæti Íslands í heiminum: Ósnortna náttúruna. En Hanna Katrín segist tortryggja ábendingar erlendra aðila enda talar frumvarpið ,,hennar” máli. Máli þeirra sem munu á endanum , fáist frumvarpið samþykkt, umbuna sömu, Hönnu Katrínu, fyrir að ganga erinda sérhagsmuna þvert á hagsmuni landsmanna.

————-

Þetta lagareldissfrumvarp er enn verra fyrir landsmenn en frumvarp VG ef fólk vill bera þau saman.

Höfundur er leikkona.




Skoðun

Sjá meira


×