Erlent

Dómsdagsklukkan færð fram

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Það styttist og enn meira en á myndinni sem er frá því í fyrra.
Það styttist og enn meira en á myndinni sem er frá því í fyrra. Kayla Bartkowski/Getty Images

Hin svokallaða dómsdagsklukka hefur verið færð fram og stendur nú í 85 sekúndum frá miðnætti, sem er met. Í fyrra var hún í 89 og færðist því fjórum sekúndum nær endalokunum milli ára. Dómsdagsklukkan er tæki vísindamanna til að sýna fram á það hve nálægt mannkynið er heimsendi.

Í umfjöllun CNN kemur fram að um sé að ræða mælikvarða sem vísindamenn á vegum Bulletin of the Atomic Scientist tímaritsins, sem upphaflega tóku þátt í þróun kjarnavopna fyrir Bandaríkin hafa nýtt sér frá 1947 til að mæla hve stutt er í heimsendi af mannavöldum. Klukkan var í upphafi stillt á sjö mínútur í miðnætti og hefur færst fram og til baka allar götur síðan.

Þannig var hún sem dæmi færð lengst í burtu frá miðnætti árið 1991 eftir að Bandaríkin og Sovétríkin undirrituðu sáttmála sín á milli um fækkun langdrægna kjarnavopna. Þá stóð hún í heilum 77 mínútum frá miðnætti.

Gervigreind og kjarnorkuvopnakapphlaup

Meðal þess sem vísindamenn tímaritsins vísuðu til vegna breytinganna nú er ófullnægjandi árangur mannkynsins í að berjast gegn alþjóðlegum áskorunum á borð við kjarnorkuógnina, loftlagsvánna, líffræðilegar ógnir og framfarir í tækni á borð við gervigreind. Þá var einnig nefnd til sögunnar sem ógn við mannkynið útbreiðsla rangra upplýsinga og samsæriskenninga.

„Mannkynið hefur ekki náð nægilegum árangri í að takast á við þær tilvistarógnir sem ógna okkur öllum,“ sagði Alexandra Bell, forseti og forstjóri Bulletin, um ástæðuna fyrir breytingunni í ár.

„Dómsdagsklukkan er tæki til að miðla því hversu nálægt við erum því að tortíma heiminum með tækni sem við höfum sjálf skapað. Áhættan sem við stöndum frammi fyrir vegna kjarnorkuvopna, loftslagsbreytinga og umbreytandi tækni fer sífellt vaxandi. Hver sekúnda skiptir máli og tíminn er að renna út. Það er erfitt að heyra þetta en þetta er veruleikinn.“

Þá er haft eftir öðrum vísindamanni á vegum tímaritsins að staða alþjóðamála sé ógnvænleg. Stórveldi verði árásarhneigðari og þjóðernissinnaðri. Fjöldi hernaðaraðgerða hafi fjölgað árið 2025 þar sem ríki sem eiga kjarnorkuvopn áttu í hlut. Þá renni síðasti samningurinn sem eftir er um kjarnorkuvopn út þann 4. febrúar næstkomandi á milli Bandaríkjanna og Rússlands. Í fyrsta sinn í meira en hálfa öld verði ekkert til að koma í veg fyrir stjórnlaust kjarnorkuvopnakapphlaup.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×