Erlent

Skotinn til bana: Mynd­efnið þvert á orð ráð­herrans

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Alex Jeffrey Pretti, 37 ára bandarískur ríkisborgari var drepinn af fulltrúum ICE í dag.
Alex Jeffrey Pretti, 37 ára bandarískur ríkisborgari var drepinn af fulltrúum ICE í dag. AP

Alex Jeffrey Pretti, 37 ára gamall hjúkrunarfræðingur og bandarískur ríkisborgari, var skotinn til bana af fulltrúum Innflytjenda- og tolleftirlits Bandaríkjanna, ICE, í Minneapolis í gær. Heimvarnarráðherra Bandaríkjanna hélt því fram að Pretti hefði ráðist á fulltrúana, þvert á það sem má sjá á myndefni af vettvangi.

Atvikið átti sér stað í Minneapolis í Minnesota í gær þar sem mikill fjöldi var saman kominn til að mótmæla aðgerðum stjórnvalda og ICE. Einungis nokkrar vikur eru síðan fulltrúar ICE skutu Renee Good, 37 ára konu, til bana í bíl hennar.

Kristi Noem, heimvarnarráðherra Bandaríkjanna, talaði við blaðamenn í kjölfar morðsins. Þar lýsir hún ógnandi tilburðum Pretti og segir hann hafa nálgast fulltrúa ICE með byssu í hendi.

„Einstaklingur nálgaðist bandaríska landamæraverði með níu millimetra hálfsjálfvirka skammbyssu. Fulltrúarnir reyndu að afvopna einstaklinginn en vopnaði maðurinn brást við á ofbeldisfullan hátt. Þar sem lögreglumaður óttaðist um líf sitt og líf fulltrúanna í kringum sig skaut hann varnarskotum,“ segir Noem samkvæmt CNN.

„Sjúkraflutningamenn voru strax á staðnum og reyndu að veita manninum læknisaðstoð en hann var úrskurðaður látinn á vettvangi. Grunaði maðurinn var einnig með tvö skotahylki með skotfærum sem innihéldu tugi skota. Hann var heldur ekki með nein skilríki. Þetta líta út fyrir að vera aðstæður þar sem einstaklingur kemur til að valda fólki hámarksskaða og drepa landamæraverði.“

Hún hélt því fyrst fram að fulltrúarnir hefðu ekki notað piparúða en dró síðan orð sín til baka.

Myndefnið samræmist ekki orðum ráðherrans

Fjöldi vitna var að morðinu og má finna fjölda myndskeiða á vefsíðum fjölmiðla vestanhafs. Miðað við myndefni sem Reuters hefur undir höndum og hefur greint má sjá að Pretti hélt á síma og tók upp fulltrúa ICE sem hrintu konu. Pretti kom sér þá á milli konunnar og fulltrúans. Hann setti höndina upp til að verja sig gegn piparúða sem fulltrúi ICE reyndi ítrekað að spreyja í augu hans.

Þá koma nokkrir ICE-liðar og þvinga Pretti niður á fjóra fætur. Pretti berst á móti en sjá má að einn fulltrúinn teygir sig og nær í byssu, ekki liggur fyrir hvort að um hafi verið að ræða byssu Pretti. Fulltrúar Alríkislögreglunnar birtu mynd af byssunni sem Pretti var með þegar hann var skotinn.

Augnabliki síðar skýtur fulltrúi ICE Pretti fjórum sinnum. Í myndskeiðinu hér fyrir neðan má heyra um tíu skot en talið er að annar fulltrúi ICE hafi einnig skotið Pretti.

Við vörum við myndefninu.

Brian O'Hara, lögreglustjóri Minneapolis, sagði að Pretti hefði haft tilskilin leyfi til að bera vopn og að hann hefði aldrei brotið af sér fyrir utan minni háttar umferðarlagabrot.

Fólk kom saman og minntist Pretti.ap

Enginn ofbeldisseggur

Tim Walz, ríkisstjóri Bandaríkjanna, er meðal þeirra sem gagnrýna lýsingu Noem.

„Ég hef séð myndbönd frá nokkrum sjónarhornum og þetta er viðbjóðslegt,“ segir Walz. „Alríkisyfirvöldum er ekki treystandi til að rannsaka málið, fylkið mun sjá um rannsóknina.“

Það kom til átaka á milli ICE-fulltrúa og mótmælenda í kjölfar morðsins.EPA

Rory Shefchek, æskuvinur Pretti, segir í samtali við People að hann hafi verið almennilegur maður sem hafi komið vel saman við alla. Hann hefði ekki verið týpan sem leitaði í ofbeldi eða slagsmál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×