Erlent

Repúblikanar leita aftur á náðir Musks

Samúel Karl Ólason skrifar
Elon Musk á ráðstefnu Alþjóðaefnahagsráðsins í Davos í Sviss.
Elon Musk á ráðstefnu Alþjóðaefnahagsráðsins í Davos í Sviss. AP/Markus Schreiber

Elon Musk, auðugasti maður heims, er að snúa sér aftur að stjórnmálum í Bandaríkjunum eftir að hann lappaði upp á samband sitt við Donald Trump, forseta. Auðjöfurinn ætlar sér að opna veski sitt á nýjan leik fyrir þingkosningarnar í nóvember en háttsettir Repúblikanar eru sagðir hafa leitað á náðir Musks og beðið hann um aðstoð.

Hann er þegar búinn að styðja einn frambjóðanda Repúblikanaflokksins um tíu milljónir dala.

Wall Street Journal segir að starfsmenn Musks hafi átt nokkra fundi að undanförnu, með frambjóðendum, ráðgjöfum þeirra og öðrum, til undirbúnings kosningabaráttunni og hvernig Musk geti best beitt sér.

Heimildarmenn miðilsins segja sérstaka áherslu hafa verið lagða á hvernig hægt væri að aðstoða Repúblikana með skilaboðum á netinu og smáskilaboðum til kjósenda. Markmiðið á að vera að fá kjósendur Trumps til að mæta einnig í kjörklefana í þingkosningunum en slíkt hefur reynst erfitt í gegnum árin.

Þá segja þeir að enn sé óljóst hve miklu púðri, og hve miklum peningum, Musk ætli að verja í kosningabaráttuna og er auðjöfurinn sagður vera að íhuga að beita sér gegnum pólitíska aðgerðasjóðinn America PAC. Þann sjóð stofnaði hann fyrir forsetakosningarnar 2024, til að aðstoða Trump og Repúblikana, sem hann gerði með því að verja nærri því þrjú hundruð milljónum dala.

Samband Musks og Trumps versnaði töluvert tiltölulega fljótt eftir að Trump tók við embætti í janúar í fyrra. Það sprakk síðan í loft upp með látum síðasta sumar og hét Musk því þá að stofna sinn eigin stjórnmálaflokk. Það gerði hann þó ekki.

Háttsettir Repúblikanar hafa að undanförnu leitað á náðir hans. Þeirra á meðal er JD Vance, varaforseti, sem er sagður hafa beðið Musk um aðstoð við að hjálpa Repúblikönum að halda meirihlutum sínum í þingi.

Útlitið þykir sérstaklega slæmt fyrir Repúblikana í fulltrúadeildinni, þar sem þeir eru með mjög nauman meirihluta.

Trump ræddi vandamál Repúblikana þegar hann ávarpaði þingmenn flokksins fyrr í mánuðinum og lýsti hann þá yfir furðu á því af hverju kjósendur væru ekki ánægðir með störf þeirra.

„Ég óska þess að þið gætuð útskýrt fyrir mér hver fjandinn er að gerast í hugum almennings. Því við erum með réttu stefnumálin, ekki þeir. Þeir [Demókratar] eru með hræðileg stefnumál.“

Þá talaði hann einnig um það að hætta við kosningarnar í haust en sagðist ekki vilja segja það.

„Ég ætla ekki að segja hættum við kosningarnar, þeir ættu að hætta við kosningarnar. Því þá segja fölsku fjölmiðlarnir: „Hann vill hætta við kosningarnar. Hann er einræðisherra“. Þeir kalla mig alltaf einræðisherra.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×