Erlent

Róa á nýnasistamið í leit að ICE-liðum

Samúel Karl Ólason skrifar
Skip

Innflytjenda- og tollaeftirlit Bandaríkjanna, eða ICE, hefur verið mikið á milli tannanna á fólki undanfarna daga. Það er sérstaklega vegna ástandsins í Minnesota, þar sem þúsundir útsendara ICE og annarra stofnana heimavarnaráðuneytis Bandaríkjanna hafa vakið mikla athygli að undanförnu og skotið tvo íbúa til bana.

Hér að neðan verður farið yfir hvað ICE er, hvernig stofnunin hefur blásið út á einu ári, hvernig auglýsingum hennar er beint að nýnasistum og öðrum öfgamönnum og umdeild störf útsendara ICE.

Heimavarnaráðuneytið (DHS) heldur utan um aragrúa alríkisstofnana en auk ICE er það hvað helst Landamæraeftirlit Bandaríkjanna (CBP) sem hefur komið að aðgerðunum í Minnesota. Í daglegu tali hafa útsendarar allra þessara stofnana gjarnan verið kallaðir ICE-liðar.

Störf þessara útsendara hafa leitt til mótmæla í nokkrum borgum Bandaríkjanna en hvergi jafn umfangsmikilla og í Minneapolis á undanförnum vikum. Sérstaklega eftir umdeild atvik þar sem útsendarar DHS skutu þau Renee Good og Alex Pretti til bana.

Nú er útlit fyrir að ríkisstórn Bandaríkjanna ætli að draga seglin eitthvað saman og mögulega draga úr fjölda útsendara í Minnesota. Það sagði Trump sjálfur í viðtali við Fox. Að hann vildi draga úr spennunni.

Greg Bovino, yfirmaður CBP, hefur verið mjög fyrirferðarmikill í Minnesota en hann var til að mynda sendur annað í gærkvöldi. Bovino, sem oftar en ekki hefur verið eini fulltrúi yfirvalda á vettvangi sem hefur ekki borið grímu, hefur gengið langt í að verja framgöngu undirmanna sinna og hefur klæðnaður hans einnig vakið mikla athygli.

Sitja á fúlgum fjár

Í fyrsta fjárlagafrumvarpi Donalds Trump á þessu kjörtímabili fékk heimavarnaráðið gífurlega stóra fjárveitingu eða um 75 milljarða dala. Það samsvarar rúmum níu billjónum króna (tólf núll). Þar af fóru þrjátíu milljarðar dala til ICE.

Með því vildu Trump-liðar auðvelda stofnunum ráðuneytisins að finna fólk sem dvelur í Bandaríkjunum ólöglega og vísa því úr landi. Sérstaka áherslu átti að leggja á að finna fólk sem hefur brotið af sér í Bandaríkjunum.

Ríkisstjórnin hefur áætlað að um ellefu milljónir manna haldi ólöglega til í Bandaríkjunum.

Sjá einnig: Segist ætla að siga hernum á farand- og flóttafólk

Þá hefur einnig verið lögð áhersla á að sýna hörku gegn þessu fólki og það opinberlega en markmiðið með því er að fá fólk til að taka sjálft þá ákvörðun að fara frá Bandaríkjunum og á eigin kostnað.

Til þessa þarf bæði peninga og fólk. ICE og DHS fengu nóg af peningum og þá vantaði fólkið.

Rúmlega tvöfalt fleiri útsendarar

ICE hefur, samkvæmt upplýsingum á síðu DHS, fjölgað starfsmönnum um 120 prósent síðan peningarnir fengust og voru tólf þúsund nýir útsendarar ráðnir. Ítrekað hafa fregnir borist af því að til að fjölga útsendurum á götum Bandaríkjanna hafi verið dregið úr ráðningarstöðlum og sömuleiðis þjálfun nýrra útsendara. Auk þess var boðið upp á fimmtíu þúsund dala ráðningabónus.

Þessir tólf þúsund nýju útsendarar munu hafa verið valdir úr hópi 220 þúsund umsækjenda. Nú starfa um tuttugu og tvö þúsund manns hjá ICE.

Færslur og auglýsingar ICE, CBP og DHS, þar sem verið er að auglýsa starfsemi stofnananna og leita að nýju starfsfólki, hafa vakið töluverða athygli. Sérfræðingar segja þær reglulega innihalda tilvísanir í fjar-hægri orðræðu og myndmál.

Of algengt til að vera tilviljun

Kanadíska ríkisútvarpið hafði nýverið eftir sérfræðingi hjá samtökunum Southern Poverty Law Centre, sem vakta öfgahópa og hreyfingar í Bandaríkjunum, að færslurnar og auglýsingarnar væru oft merkilega kunnuglegar.

Hannah Gais sagðist hafa fylgst með þjóðernissinnum og nýnasistum í tæpan áratug og að hún kannaðist við margt frá þeirri vinnu sinni í færslum þessara stofnana. Það væri ógnvekjandi.

Í grein CBC er vísað í fjölmörg dæmi um tilvísanir í nasista og KKK, svo eitthvað sé nefnt. Sérfræðingar sem rætt var við segja ómögulegt að þetta gerist af slysni. Í einu sérstöku tilfelli er bent á færslu frá DHS þar sem vitnað er í lag sem er nánast óþekkt en nýnasistar deila ítrekað sín á milli á samfélagsmiðlum eins og Telegram. Lagið fjallar um „útskiptin miklu“ sem er samsæriskenning um að markvisst sé unnið að því að skipta fólki út fyrir útlendinga, í einföldu máli sagt.

Áhugasamir geta séð margar af þessum tilvísunum í frétt CBC hér að neðan.


Hundrað milljónir dala í auglýsingaherferð

Blaðamenn Washington Post komu undir lok síðasta árs höndum yfir minnisblað frá ICE þar sem fram kom að til stæði að fjölga auglýsingum um starfsfólk verulega á þessu ári og ráða þúsundir útsendara til viðbótar, þar sem „stríðsástand“ ríkti í Bandaríkjunum.

Þar kom einnig fram hvernig til stóð að beina þessum auglýsingum sérstaklega að fólki sem sækir UFC-bardaga í blönduðum bardagalistum, hlustar á hlaðvörp sem þykja hægrisinnuð, hefur áhuga á byssum og hernaði og NASCAR-kappakstri, svo eitthvað sé nefnt.

Í þetta átak átti að verja hundrað milljónum dala í auglýsingar á samfélagsmiðlum, greiðslur til áhrifavalda og manna sem streyma á Rumble, sem er vinsæl myndbandaveita meðal nýnasista og annarra öfgamanna.

Segja flesta hafa reynslu af löggæslustörfum

Sarah Saldaña, sem stýrði ICE í tíð Baracks Obama, sagði stofnunina aldrei hafa gripið til annarra eins aðgerða áður. Iðulega hafi verið ráðið í opnar stöður með því að leita til lögregluembætta á þeim svæðum sem ráða ætti fólk og spyrja lögregluþjóna hvort þeir hefðu áhuga á störfunum.

Hún sagðist hafa sérstakar áhyggjur af því að minnisblaðið benti til þess að verið væri að ráða reynslulítið fólk sem hefði áhuga á skotvopnum og hernaði og langaði jafnvel að lenda í átökum.

Tricia McLaughlin, talskona DHS, sagði þó að af þeim sem hefðu verið ráðnir til ráðuneytisins (í heildina um átján þúsund) hefðu 85 prósent þeirra haft reynslu af löggæslustörfum eða herþjónustu.

Hættu fljótt að einbeita sér að afbrotamönnum

Þrátt fyrir alla peningana og fólkið hefur gengið tiltölulega erfiðlega fyrir Trump-liða að vísa fólki úr landi í þeim fjölda sem vonast var til. Það er að miklu leyti vegna þess að í sögulegu samhengi eru gífurlega fáir sem reyna að komast yfir landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó síðan Trump tók við embætti.

Þá hefur ríkisstjórnin gert fólki erfiðara að sækja um hæli í Bandaríkjunum.

Sjá einnig: Var fluttur ó­vart úr landi en er snúinn aftur

Stephen Miller, einn nánasti ráðgjafi Trumps sem er talinn hugmyndafræðilegur faðir þessarar áætlunar ríkisstjórnarinnar, hellti sér yfir forsvarsmenn DHS og ICE um síðasta sumar. Þá var hann sagður hafa húðskammað þá og sett þeim það markmið að ná þrjú þúsund handtökum á dag.

Þangað til var áætlað að á undanförnum fimm mánuðum hefði meðaltalið verið um 650 handtökur á dag. Handtökur hafa þó ekki alltaf endað með ákærum eða brottvísunum.

Miller skipaði þeim að hætta að einbeita sér að glæpamönnum og byrja að handtaka alla sem eru í Bandaríkjunum ólöglega, jafnvel þó þeir hafi aldrei brotið af sér. Þá átti að leggja sérstaka áherslu á ríki og borgir þar sem Demókratar halda í stjórnartaumana.

Sjá einnig: Vopnvæðir fjár­svikamál til að refsa „bláum ríkjum“

Kristi Noem, heimavarnaráðherra, hélt því nýlega fram að nærri því þrjár milljónir manna sem hefðu dvalið ólöglega í Bandaríkjunum hefðu farið þaðan síðan Trump tók aftur við embætti. Þar af hefðu 2,2 milljónir manna farið sjálfviljugir og rúmlega 675 þúsund hefði verið vísað úr landi.

Æðsti alríkisdómari Minnesota hefur skipað Todd M. Lyons, yfirmanni ICE, að mæta í dómsal á föstudaginn og hótaði dómarinn að refsa honum ef Lyons mætti ekki. Dómarinn segir að ICE hafi ekki fylgt eftir fjölda úrskurða dómara á undanförnum vikum.

Dómarinn, sem heitir Patrick J. Schiltz og var skipaður af George W. Bush, segist meðvitaður um að hann sé að feta ótroðnar slóðir með að skipa yfirmanni alríkisstofnunar að mæta í dómstal en brot ICE gegn fjölda úrskurða hans og annarra dóma séu fordæmalaus.

Sérfræðingar gagnrýnir á ICE-liða

Blaðamenn Washington Post ræddu við átta prófessora og sérfræðinga í þjálfun löggæsluaðila um það hvernig útsendarar ICE og CBP um það hvernig þeir fylgdu þjálfun og viðmiðum þegar kemur að aðdraganda þess þegar Alex Pretti var skotinn til bana.

Myndböndin sýna ekki allan aðdragandann að því að tveir útsendarar skutu Pretti tíu sinnum þar sem hann lá í götunni en allir sérfræðingarnir átta voru sannfærðir um að hægt hefði verið að komast hjá dauða hans með því að fylgja grunnaðferðum lögreglujóna og draga úr spennu.

Meðal annars hefði einn útsendari ekki þurft að hrinda konu sem var að mótmæla störfum þeirra í götuna. Sérfræðingarnir sögðu að ef hún hafi verið að pirra þá, hefðu þeir átt að hunsa hana og ef hún hefði gert eitthvað ólöglegt hefði átt að handtaka hana.

Þegar hún lenti í jörðinni steig Pretti á milli hennar og útsendara ICE sem byrjaði samstundis að sprauta táragasi í andlit hjúkrunarfræðingsins. Aðrir komu þá askvaðandi og rifu hann í jörðina og var hann meðal annars ítrekað barinn, að virðist, í höfuðið.

Virðast ekki hafa gefið Pretti skipanir

Ekkert bendir til þess að ICE-liðar hafi sagt Pretti að hann væri handtekinn eða gefið honum nokkurt svigrúm til að bregðast við einhverjum skipunum, ef þær voru yfir höfuð gefnar.

Einn sérfræðingur sagðist ekki sjá nokkra ástæðu til þess að ICE-liðarnir fóru í átök við Pretti. Þá segir annar að það að svo margir menn hafi ekki strax yfirbugað Pretti bendi til þess að þjálfun þeirra sé ekki nægjanlega góð.

Á meðan þessi átök standa yfir virðist sem að einn ICE-liðanna taki eftir því að Pretti var með byssu, sem hann hafði leyfi fyrir, og heyrist einhver kalla að byssa sé í spilinu. Á sama tíma kemur einn útsendari og tekur byssuna af hjúkrunarfræðingnum. Hann segir þó samstarfsmönnum sínum ekki frá því.

Rétt eftir að hann fjarlægir byssuna hleypir einn ICE-liði af fyrsta skotinu og virðist hann skjóta Pretti í bakið. Níu skotum var svo hleypt af til viðbótar og þar af nokkur þar sem Pretti lá hreyfingarlaus í götunni.

Hér að neðan má sjá greiningu New York Times á dauða Pretti. Myndefnið getur vakið óhug lesenda.

Starfsandinn slæmur hjá ICE

Bæði núverandi og fyrrverandi útsendarar ICE hafa lýst yfir pirringi sínum og jafnvel ótta vegna starfa ICE í samtölum við blaðamenn á undanförnum dögum. Blaðamenn New York Times ræddu til að mynda við á þriðja tug þeirra og sögðu þeir að starfsandinn innan DHS færi sífellt versnandi.

Þar að auki sögðu þeir að langir vinnudagar og mikil spenna þar sem útsendarar ICE væru að störfum hefðu aukið líkurnar á hættulegum atvikum, bæði fyrir þá og óbreytta borgara.

Margir sögðust hafa áhyggjur af því að átak ríkisstjórnarinnar myndi valda tveimur stærstu löggæslustofnunum heimavarnaráðuneytisins svo miklum skaða að það gæti jafnvel gert út um þær. Demókratar myndu líklega leggja ICE niður ef og þegar þeir ná völdum aftur.

Fyrrverandi yfirmaður CBP, landamæraeftirlitsins, sagði ljóst á samtölum sínum við núverandi starfsmenn að þeir væru einstaklega óánægðir með þau verkefni sem þeir væru látnir vinna þessa dagana. Þeir væru þjálfaðir til að vakta landamærin og vildu snúa sér aftur að því.

Yfirmaður verkalýðsfélags starfsmanna CBP sagði þó að starfsandi væri góður og að það væri enginn skortur á sjálfboðaliðum. Einu áhyggjurnar sem þeir hefðu sneru að því að þeir yrðu nafngreindir á netinu og fjölskyldur þeirra settar í hættu.

Allir núverandi og fyrrverandi starfsmenn ICE sem ræddu við NYT sögðust styðja aðgerðir ríkisstjórnarinnar og kenndu Demókrötum að miklu leyti um ástandið. Flestir sögðust ósáttir við ummæli embættismanna í ríkisstjórninni um dauða Good og Pretti.

Þeir voru sérstaklega pirraðir yfir því hvernig embættismenn staðhæfðu strax að Pretti hefði ætlað sér að myrða alríkisútsendara og að enginn hefði brotið af sér þegar hann var skotinn.

Þá voru margir á þeim buxunum að hvernig staðið væri að handtökum væri ekki gott. Að stórum hluta vegna þess að útsendarar væru ekki þjálfaðir í því að takast á við hópa reiðra borgara og mótmælenda.

„Við höfum misst allt traust,“ sagði einn starfandi yfirmaður hjá ICE.

„Ég sé ekki fyrir mér hvernig við verðum áfram til eftir þrjú ár.“

Stjórnendur ICE, CBP og USCIS, sem er önnur löggæslustofnun varðandi innflytjendamál, munu allir mæta á fundi á báðum deildum þings í næsta mánuði. Þar eru umtalsverðar deilur um ICE og heimavarnaráðuenytið og fjárveitingar til þeirra. Demókratar vilja að þingið reyni að koma einhverjum böndum á þessar stofnanir en Repúblikanar hafa lítið vilja standa í hárinu á Trump, þó nokkrir þingmenn flokksins hafi verið gagnrýnir á störf útsendara DHS á undanförnum dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×