Skoðun

Ís­land á kross­götum: Raun­sæi eða tál­sýn?

Davíð Bergmann skrifar

Það virðist koma sumum pólitískum spekúlöntum í opna skjöldu að Miðflokkurinn rjúki upp í skoðanakönnunum. Mér kemur þessi þróun ekki á óvart, og hún kemur síst á óvart þeim sem þurfa að mæta áskorunum hversdagsins af fullri hörku. Á meðan aðrir flokkar fela sig bak við loðna pólitíska frasa og rembast eins og rjúpan við staurinnvið það eitt að reyna að komast í „Evrópuklúbbinn“ – hvað sem það kostar – þá þorir Miðflokkurinn að tala tæpitungulaust. Við mætum fallandi Evrópusambandi sem er ósamstígandi og stendur á brauðfótum. Við vitum að „sérsamningar“ í Brussel eru tálsýn. Innganga þýddi að við fórnuðum yfirráðum yfir auðlindum okkar, hvort heldur er til sjávar eða sveita. Tækifæri okkar liggja á alþjóðavettvangi á eigin forsendum en ekki sem peð eða undirlægja í miðstýrðu skrifræðisbákni Brussel-valdsins.

Heilbrigð skynsemi gegn kerfisstjórnmálum

Við erum þjóðhollur flokkur sem stendur vörð um menningu okkar og innviði. Það snýst ekki um fordóma, og hvað þá rasisma, sem sumir andstæðingar okkar reyna hvað þeir geta að spyrna okkur við í von um að þagga niður í málefnalegri umræðu. Þetta snýst um heilbrigða skynsemi og að þora að ræða hlutina eins og þeir eru.

Það er athyglisvert að sjá hvernig raunsæisstefna okkar í útlendingamálum hefur loksins „smitað“ út frá sér til formanns Samfylkingarinnar. En á meðan aðrir flokkar skipta um skoðun eftir því hvaðan vindurinn blæs, þá hefur Miðflokkurinn sýnt stefnufestu og staðið vörð um íslenska hagsmuni allan tímann.

Þetta er mín skoðun: Ríkið á að þjóna fólki – ekki að þenja sig út

Í Miðflokknum ríkir sú heilbrigða menning að við megum hafa ólíkar skoðanir á hinum ýmsu málum. Við fögnum málefnalegum ágreiningi, tökum umræðuna og nýtum ólík sjónarmið til að komast að ásættanlegri og skynsamlegri niðurstöðu. Það er styrkur flokksins sem styrkir staðfestu okkar á að setja hagsmuni lands og þjóðar alltaf í fyrsta sæti.

Hvað mig varðar þá er það mín staðfasta skoðun, sem ég deili með mörgum flokkssystkinum mínum, að umsvif ríkisins í samfélaginu séu orðin allt of mikil. Við þurfum að minnka ríkisbúskapinn og ríkisútgjöldin og hætta að láta ríkið starfa á samkeppnismarkaði gegn atvinnulífinu.

  • Lækkum vexti með ábyrgð:

Ég vil að við seljum eignir sem ríkið á ekkert erindi með að reka, eins og banka eða áfengissölu. Með því að nota söluhagnaðinn til að greiða niður skuldir ríkissjóðs minnkum við vaxtakostnað, vinnum gegn verðbólgu og lækkum vexti á heimilin.

  • Útvistun og skilvirkni:

Það er mín skoðun að við eigum að útvista verkefnum til einkaaðila í ríkara mæli, jafnt í heilbrigðiskerfinu sem í öðrum málaflokkum, til að stytta biðlista og bæta þjónustu.

  • Sjálfstæð kirkja og RÚV:

Ég tel að þjóðkirkjan eigi að standa á eigin fótum. Þar mætti ná í fjármuni sem samsvara rekstri RÚV á ári (að meðtöldum auglýsingatekjum). Með því að minnka áhrif RÚV aukum við samkeppnistækifæri fyrir aðra miðla á markaði.

  • Frelsi undan skriffinnsku:

Við eigum að höggva á hlekki skriffinnskunnar og frelsa einstaklinginn undan íþyngjandi regluverki.

Sveitarstjórnarkosningar framundan: Staðfesta í verki

Þar sem sveitarstjórnarkosningar nálgast óðfluga og listar Miðflokksins fara senn að birtast um allt land langar mig að minna á að flokkurinn stendur fyrir sömu staðfestu í nærumhverfinu og á landsvísu. Við bjóðum fram skýra línu; við viljum skilvirkni í rekstri, lægri álögur á íbúa og að þjónusta sé veitt á forsendum fólksins en ekki báknsins.

Allar raddir fá að heyrast

Láttu „spámennina“ eiga sig þegar þeir nota innantóma merkimiðapólitík gegn okkur. Það eru staðhæfulausir sleggjudómar sem standast ekki neina skoðun. Miðflokkurinn er lifandi afl þar sem allar raddir fá að heyrast. Komdu frekar í vöfflukaffi hjá okkur, kynntu þér starfið og láttu þína eigin rödd hljóma. Við erum valkostur fyrir þá sem vilja raunsæi umfram rétttrúnað.

Tími tiltektar er kominn og núna eru það sveitarstjórnarmálin.

Höfundur er áhugamaður um betra samfélag og Miðflokksmaður.




Skoðun

Sjá meira


×