Innlent

Skýrsla félagsbústaða kol­svört

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og stjórnarmaður hjá Félagsbústöðum segir óeðlilegt að taka ákvörðun um framlag til Félagsbústaða þegar ný skýrsla um reksturinn hafi ekki verið gerð opinber. Hann líkir ákvörðuninni við prófkjörsvíxil. 
Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og stjórnarmaður hjá Félagsbústöðum segir óeðlilegt að taka ákvörðun um framlag til Félagsbústaða þegar ný skýrsla um reksturinn hafi ekki verið gerð opinber. Hann líkir ákvörðuninni við prófkjörsvíxil.  Visir

Meirihlutinn í borgarstjórn ákvað í gær að styrkja Félagsbústaði um 2,4 milljarða króna. Það er tvöfalt hærri upphæð en sú lágmarksupphæð sem starfshópur um fjárhagsstöðuna leggur til í nýrri skýrslu. Borgarfulltrúi og stjórnarmaður Félagsbústaða gagnrýnir að skýrslunni hafi verið haldið leyndri fyrir minnihlutanum. Málið lykti af prófkjörsbaráttu Samfylkingarinnar.

Meirihluti borgarstjórnar samþykkti á borgarstjórnarfundi í gær að borgin skuldbindi sig til að veita Félagsbústöðum fjárframlög næstu fimm ár upp á samtals um 2,4 milljarða króna. Þrjú hundruð milljónir séu vegna síðasta árs. 

Minnihlutinn í borginni gagnrýnir harðlega að við ákvörðun meirihlutans hafi ekki verið birt ný skýrsla um fjárhagsstöðu Félagsbústaða og tillögur til úrbóta. Heiða B. Hilmisdóttir greindi frá því í hádegisfréttum Bylgjunnar að það hafi ekki verið hægt að birta hana því hún sé í umsagnarferli. 

Kolsvört skýrsla

Fréttastofa hefur skýrsluna sem ber heitið, Frá skuldsettum vexti til sjálfbærni, undir höndum sem sérfræðingar frá Reykjavíkurborg og framkvæmdastjóri Félagsbústaða eru skrifaðir fyrir. Þar er farið yfir þrönga fjárhagsstöðu félagsins. Veltufé standi naumlega undir afborgunum og viðhaldi. Ef ekki komi til raunhækkunar á leiguverði eða sérstaks eiginfjárframlags frá eiganda skapist hætta á greiðsluerfiðleikum.

Úr skýrslu starfshóps borgarstjórnar um fjárhagstöðu Félagsbústaða sem minnihlutinn í borgarstjórn gagnrýnir að hafi ekki verið gerð opinber,Vísir

Meirihlutinn tvöfaldaði lágmarksupphæðina

Í skýrslu starfshópsins koma fram sjö tillögur um hvernig hægt sé að laga rekstrarskilyrðin. Þeim sé ætlað að stöðva þann skuldadrifna vöxt sem hafi einkennt rekstur Félagsbústaða. 

Meðal þess sem lagt er til er að borgin skuldbindi sig til að veita að lágmarki 250 milljónum króna í árlegt framlag til Félagsbústaða næstu fimm árin. Þá eru kynntar fjórar sviðsmyndir til að hagræða í rekstrinum. 

Meirihlutinn í borgarstjórn ákvað að tvöfalda upphæðina sem lögð er til í skýrslunni á borgarstjórnarfundi í gær. 

Ákváðu í samstarfssáttmála að tvöfalda kaupin

Heiða B. Hilmisdóttir borgarstjóri segir að meirihlutinn hafi ákveðið að fara aðrar leiðir en þar eru lagðar til. 

„Í samstarfssáttmála meirihlutans kom fram að við vildum tvöfalda kaup á félagslegu húsnæði. Þannig að þetta er leið til þess. Nú er mér falið að skoða nýtingu fjármagnsins með Félagsbústöðum,“ segir Heiða í samtali við fréttastofu um málið. 

Aðspurð um hvort tillaga meirihlutans vegna Félagsbústaða sé önnur en komi fram í skýrslu starfshópsins svarar Heiða því játandi. 

„Já, það eru nokkrar sviðsmyndir sem eru lagðar fram um framtíðaruppbyggingu og tilhögun á rekstri í skýrslunni,“ segir Heiða.  

Úr skýrslu starfshópsins. Vísir

„Tel að hér sé um prófkjörsvíxil að ræða“

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og stjórnarmaður Félagsbústaða segir að lengi hafa legið fyrir að félagið þurfi nauðsynlega að fá fjármagn í reksturinn en gerir alvarlegar athugasemdir við framgöngu meirihlutans í málinu og leyndina sem hvíli yfir skýrslu starfshópsins.

„Við gagnrýnum þessa undarlegu málsmeðferð. Þetta er þriðja skýrslan sem hefur verið gerð um Félagsbústaði undanfarin ár en engin þeirra hefur verið gerð opinber. Málefnum Félagsbústaða hefur verið velt undan allt kjörtímabilið án aðgerða,“ segir Kjartan.

Hann gerir athugasemd við að málið sé til afgreiðslu nú þegar nokkrir dagar eru í prófkjör Samfylkingarinnar í borginni.

„Loksins núna þegar eru nokkrir dagar til prófkjörs Samfylkingarinnar samþykkir meirihlutinn tillögu um Félagsbústaði. Ekki er orðið við óskum um að afhenda skýrslur sem tengjast málinu. Ég tel að hér sé um prófkjörsvíxil að ræða. Með þessari ákvörðun er verið að skuldbinda borgarstjórn allt næsta kjörtímabil í málinu sem er óeðlilegt rétt fyrir kosningar,“ segir Kjartan. 

Aðspurður um að fréttastofa hafi skýrsluna þar sem komi fram tillaga um mun lægra fjárframlag til Félagsbústaða en meirihlutinn hafi svo ákveðið svarar Kjartan:

„Auðvitað er mjög óeðlilegt að taka slíka ákvörðun þegar meirihluti borgarfulltrúa hefur ekki séð skýrsluna og tvær aðrar skýrslur sem hafa verið gerðar um Félagsbústaði á kjörtímabilinu. Aðeins borgarráð og Félagsbústaðir hafa fengið að sjá þær.  Ég hefði talið lágmark að borgarfulltrúar fái að sjá allar þær skýrslur sem hafa verið gerðar um Félagsbústaði á kjörtímabilinu,“ segir Kjartan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×