Erlent

Hundruð her­manna í við­bragðs­stöðu vegna Minnesota

Samúel Karl Ólason skrifar
Pete Hegseth er varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Hann hefur sett töluverðan fjölda hermanna í Alaska í viðbragðsstöðu, ákveði Bandaríkjaforseti að senda hermenn til Minnesota.
Pete Hegseth er varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Hann hefur sett töluverðan fjölda hermanna í Alaska í viðbragðsstöðu, ákveði Bandaríkjaforseti að senda hermenn til Minnesota. AP/Kevin Wolf/

Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur sett 1.500 fallhlífarhermenn í viðbragðsstöðu vegna mögulegra aðgerða í Minnesota. Það er ef Donald Trump, forseti, stendur við hótun sína um að beita gömlum uppreisnarlögum til að siga hernum á mótmælendur í ríkinu en þar hafa umfangsmikil mótmæli gegn starfsemi Innflytjenda- og tollaeftirlits Bandaríkjanna (ICE) átt sér stað.

Mikil óreiða ríkir í Minnesota en þangað hefur ríkisstjórn Trumps sent þúsundir útsendara alríkisins. Þar er þeim ætlað að finna fólk sem dvelur ólöglega í Bandaríkjunum og rannsaka spillingu.

Trump hefur einblínt mjög á Minnesota á undanförnum vikum og jafnvel mánuðum og er það að miklu leyti vegna umfangsmikilla fjársvikamála þar.

Ítrekað hefur komið til mótmæla í borgum og bæjum Minneapolis á undanförnum vikum og hafa útsendarar heimavarnaráðuneytis Bandaríkjanna beitt táragasi og hvellsprengjum gegn mótmælendum.

Tump og embættismenn hans hafa staðhæft að mótmælendur séu „atvinnu-æsingarmenn“ og jafnvel uppreisnarmenn. Hann hótaði á dögunum að beita lögum sem á ensku kallast „Insurrection act“ og voru samin árið 1792, til að senda hermenn til Minnesota og þannig binda fljótt enda á mótmælin.

Á föstudaginn virtist hann svo draga aðeins í land og sagði að ekki væri tilefni til að beita uppreisnarlögunum að svo stöddu. Trump bætti við að hann gæti enn notað þau og sent hermenn til Minnesota.

Washington Post hefur eftir heimildarmönnum sínum í varnarmálaráðuneytinu að um 1.500 hermenn úr elleftu fallhlífaherdeildinni í Alaska hafi verið settir í viðbragðsstöðu, ef ástandið í Minnesota skyldi versna enn frekar.

Hvíta húsið staðfesti að svo væri og sagði það eðlilegt að ráðuneytið væri undirbúið fyrir þær ákvarðanir sem Trump gæti tekið. Að öðru leyti vildu talsmenn Trumps ekki tjá sig um málið.

Til átaka kom milli tveggja hópa mótmælenda í Minneapolis í gær. Annar hópurinn mótmælti aðgerðum ríkisstjórnarinnar í ríkinu en hinn hópurinn, sem innihélt meðal annars menn sem Trump náðaði vegna árásarinnar á þinghúsið 6. janúar 2021, voru á svæðinu til að lýsa yfir stuðningi við ríkisstjórnina.

Síðarnefndi hópurinn þurfti frá að hverfa eftir að til átaka kom.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×