Erlent

Witkoff segir annan á­fanga friðaráætlunarinnar hafinn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Vetrarveðrið hefur aukið á hörmungarnar á Gasa og ungabörn látist vegna kuldans.
Vetrarveðrið hefur aukið á hörmungarnar á Gasa og ungabörn látist vegna kuldans. Getty/Anadolu/Saeed M. M. T. Jaras

Steve Witkoff, ráðgjafi og erindreki Donald Trump Bandaríkjaforseta, segir annan áfanga friðaráætlunar Trump fyrir Gasa hafinn. Þetta þýddi að áherslan færðist nú frá því að koma á vopnahléi og á afvopnun Hamas, yfirtöku teknókrata á svæðinu og endurreisn.

Fyrsti áfangi 20 liða friðaráætlunar Bandaríkjamanna fól í sér vopnahlé, lausn gísla í haldi Hamas, afturhvarf Ísraelshers að hluta og aukna neyðaraðstoð. Að sögn Witkoff mun annar áfanginn fela í sér afvopnun Hamas og annarra vígahópa. Ef þeir neiti, verði afleiðingarnar alvarlegar.

Hamas-samtökin hafa hins vegar fyrir sitt leyti þvertekið fyrir að afvopnast fyrr en í fyrsta lagi eftir formlega stofnun sjálfstæðrar Palestínu. Þá er tæplega hægt að segja að fyrsta áfanganum sé lokið, þar sem báðir aðilar hafa sakað hinn um að brjóta gegn vopnahléinu og ástandið fyrir íbúa er enn langt frá því að vera viðunandi. Hjálpargögn eru enn af skornum skammti og næstum 450 Palestínumenn eru sagðir hafa látist í árásum Ísraels frá því að vopnahléið komst á.

Yfirvöld í Egyptalandi, Katar og Tyrklandi, sem hafa komið að því að miðla málum milli Ísraels og Hamas, hafa fagnað stofnun framkvæmdastjórnar teknókrata sem mun hafa umsjón með svæðinu. Þá hafa þau greint frá því að formaður stjórnarinnar verði Ali Shaath, fyrrverandi ráðherra palestínsku heimastjórnarinnar.

Stjórnin mun starfa undir eftirliti „friðarstjórnar“ Donald Trump Bandaríkjaforseta. Frekari upplýsinga um stjórnina og fyrirkomulagið er að vænta á næstu dögum, samkvæmt BBC. Bæði Hamas og heimastjórnin hafa lýst yfir stuðningi við framkvæmdastjórnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×