Innlent

Akademískir starfs­menn lýsa yfir van­trausti á rektor

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Margrét Jónsdóttir Njarðvík er rektor Háskólans á Bifröst.
Margrét Jónsdóttir Njarðvík er rektor Háskólans á Bifröst.

Félag akademískra starfsmanna við Háskólann á Bifröst (FAB) hefur lýst yfir vantrausti á stjórnsýslu rektors skólans, Margrétar Jónsdóttur Njarðvík. Félagið segir framgöngu rektors, deildarforseta viðskiptadeildar skólans og rannsóknarstjóra í kærumálum gegn þremur starfsmönnum hafa einkennst af ófaglegum vinnubrögðum. 

Frá þessu greinir Morgunblaðið, sem hefur rætt við tvo starfsmenn og hefur undir höndum yfirlýsingu FAB.

Miðillinn hefur eftir starfsmanni að rektor, deildarforsetinn og rannsóknarstjórinn hafi notað gervigreindarforritið Claude til að meta réttmæti höfundarstöðu á vísindagreinum hjá akademískum starfsmönnum, sem sé vísindalega og siðferðilega ámælisvert. 

Gervigreindin geti ekki svarað spurningum af þessu tagi.

Rektor og deildarforseti hafi hins vegar í kjölfarið ákveðið að kæra viðkomandi starfsmenn til siðanefndar á grundvelli niðurstöðu gervigreindarinnar. Þá hafi rektor óskað eftir því að siðanefndin gerði starfsmönnunum ekki grein fyrir kærunum fyrr en að niðurstaða lægi fyrir. 

Eftir að siðanefnd hafi neitað, hafi rektor sent bréf á erlenda háskóla og greint meðhöfundum umræddra vísindagreina frá því að starfsmennirnir sættu rannsókn.

Sextán starfsmenn eru sagðir hafa greitt atkvæði með vantrauststilögunni en einn á móti.

„Fundur Félags akademískra starfsmanna við Háskólann á Bifröst (FAB) lýsir yfir vantrausti á stjórnsýslu rektors háskólans í nýlegum kærumálum til siðanefndar skólans, sem beinst hafa gegn þremur akademískum starfsmönnum samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir. Slíkt er óþekkt í sögu skólans og að mati félagsins einkennist framganga rektors, deildarforseta Viðskiptadeildar og rannsóknarstjóra af ófaglegum vinnubrögðum sem grafið hafa undan trausti, faglegu öryggi starfsmanna og orðspori háskólans,“ segir í vantraustsyfirlýsingunni samkvæmt Morgunblaðinu.

„Þegar saman eru tekin atvik máls þá telur FAB að rektor skólans hafi brotið gróflega á réttindum starfsfólks með aðför að fræðimannsheiðri þeirra og faglegri virðingu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×