Innlent

Verði að bregðast við vin­sældum meintra iðnaðar­manna á Facebook

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Jón Sigurðsson húsasmíðameistari og Pétur H. Halldórsson rafvirkjameistari ræddu málin í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
Jón Sigurðsson húsasmíðameistari og Pétur H. Halldórsson rafvirkjameistari ræddu málin í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Vísir

Iðnaðarmenn segja eftirspurn eftir svartri vinnu að aukast hér á landi. Þeim fjölgi sem sæki í iðnaðarmenn með óljós réttindi á samfélagsmiðlum. Stjórnvöld þurfi að bregðast við með hækkun endurgreiðslu virðisaukaskatts á vinnu iðnaðarmanna.

Þetta kom fram í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Þangað mættu þeir Jón Sigurðsson húsasmíðameistari og Pétur H. Halldórsson rafvirkjameistari en þeir eru fulltrúar Meistaradeildar Samtaka iðnaðarins. Þeir segja að ásókn í svarta atvinnustarfsemi hafi aukist nýverið í kjölfar samdráttarskeiðs í iðnaðinum. Það sé mikið áhyggjuefni.

Erfitt að setja puttann á umfangið

„Það er erfitt að setja puttann á það held ég hversu umfangið er mikið en það er gríðarlegt og það eru örugglega til tölulegar staðreyndir um það hjá ríkisskattsstjóra hvað svört starfsemi er mikill hluti af þessu. En við verðum alltaf varir við þetta í öllum samdráttarskeiðum, þá kemur þessi eftirspurn eftir svartri vinnu,“ segir Pétur í Bítinu.

„Við sjáum það líka mikið þegar við erum að skoða samfélagsmiðlana, það eru ýmsar Facebook síður og annað slíkt sem eru að bjóða vinnu. Í mjög mörgum tilfellum, ég ætla ekki að alhæfa, að þá er mikið af mönnum sem eru að bjóða svarta vinnu. Þetta er óhjákvæmilegt eflaust, menn láta vita, geta tekið að sér smá verk án þess að gefa út reikninga. Þetta eru oft ekki fyrirtæki á bakvið þetta, þetta eru einstaklingar og þetta er samkeppni sem við þurfum að horfa upp á við okkur.“

Þeir benda á að engin neytendavernd fylgi slíkum viðskiptum í gegnum samfélagsmiðla. Kaupin séu gjarnan af einstaklingum sem óljóst sé hvort að séu með tiltæk réttindi eða þekkingu. Hægt sé að skoða réttindi iðnaðarmanna og samninga á meistarinn.is. 

„Ef eitthvað illa fer, hvernig ætlarðu að lögsækja? Hann hefur ekki gefið út reikninga og hvernig ætlarðu að sanna að hann hafi unnið fyrir þig? Það eru nokkrar hliðar á þessu, þannig ég hvet eindregið gegn öllu slíku.“

Breytinga þörf

Þeir félagar rekja það í Bítinu að endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna vinnu hafi lækkað árið 2023 úr sextíu prósentum niður í 35 prósent. Jón segir engin rök hafa verið gefin á sínum tíma en augljóst hafi verið að ráðamenn hafi vonast eftir meiru í ríkiskassann. Hann segir einu leiðina til að bregðast við svartri atvinnustarfsemi vera að hækka endurgreiðsluna.

„Með því að endurgreiða virðisaukaskatt hundrað prósent. Við sjáum bara að það er skýrsla sem var gefin út 2016 eða 2017. Þar kemur fram að umsóknir um endurgreiðslu á virðisaukaskatti, að þeim fækkar um sextíu prósent, þegar endurgreiðslan lækkar úr hundrað prósent niður í sextíu prósent. Og svo hefur ekkert verið athugað þegar þú lækkar niður í 35. Og með því að endurgreiða virðisaukaskatt af vinnu hundrað prósent þá fær ríkið bæði tekjuskattinn á fyrirtækin sem fá að vinna verkin og svo staðgreiðsluna af starfsmanninum. Þá teljum við að við náum að minnka eða sporna við þessari svörtu vinnu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×