Innlent

„Við höfum ekkert að fela“

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Inga Sæland er nýr mennta- og barnamálaráðherra.
Inga Sæland er nýr mennta- og barnamálaráðherra. Vísir/Vilhelm

Mennta- og barnamálaráðherra segir ráðuneytið ekkert hafa að fela hvað varði niðurstöður einstakra grunnskóla í samræmdum prófum. Nemendur í grunnskóla taka samræmd próf í fyrsta skipti í fimm ár í vor.

„Við höfum ekkert að fela og á meðan við reynum að halda hlutunum niðri í kjallara og enginn fær að sjá og við lítum á það sem viðurkennt þá munum við ekki viðurkenna vandann,“ segir Inga Sæland, mennta- og barnamálaráðherra, sem ræddi við Smára Jökul Jónsson, fréttamann Sýnar, fyrr í vikunni um drög að nýrri reglugerð um fyrirkomulag samræmdra prófa.

Drögin voru birt í byrjun vikunnar og fara yfir samræmt námsmat í íslensku og stærðfræði sem allir nemendur í fjórða, sjötta og níunda bekk grunnskóla gangast undir. Nú í vor taka öll börnin í áðurnefndum bekkjum í fyrsta skipti samræmd matspróf, kölluð stöðu- og framvindupróf, síðan samræmdu prófin voru lögð niður árið 2021.

Í 11. grein draganna kemur fram að ráðherra muni birta skýrslu þar sem greint er frá niðurstöðum einstakra skóla í samanburði við landsmeðaltöl og eftir árgöngum. Tekið er fram að til að gögnin verði ópersónugreinanleg verði tryggt að nægilega margir nemendur standi að baki hverri mælingu.

„Við þurfum frekar að horfast í augu við verkefnið og sjá hvernig við raunverulega stöndum út um allt land. Ég tel að það sé bara til góðs, þetta er allt uppi á borði,“ segir Inga.

Endurskoðun birtingarinnar

Nokkrar umsagnir hafa verið birtar í samráðsgátt stjórnvalda þar sem áformin um birtingu einkunnanna eru harðlega gagnrýnd. Meðal röksemdarfærslu er að hætta sé á að öll kennsla verði miðuð við að fá háa einkunn þar sem skólinn vilji ekki fá dóm fjölmiðla og að opinber birting á námsstöðu nemendahópa auki hættu á einelti. Kallað er eftir að 11. greinin verði endurskoðuð.

Inga telur að birtingin muni ekki skapa togstreitu milli skóla.

„Ég held frekar að við drögum fram verkefni sem fyrir höndum liggur. Við sjáum það betur svart á hvítu og öll þjóðin fær að sjá það, hvort ég sé til dæmis hér að tala tóma vitleysu eða sé eitthvað til í því sem ég er að segja,“ segir hún.

„Gögnin munu sýna fram á það, þetta mun tala sínu máli og þjóðin, foreldrarnir, samfélagið, á hundrað prósent rétt á því að sjá hver staðan er í menntakerfinu okkar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×