Innlent

Rúmur fjórðungur lést vegna blóðrásarsjúkdóma

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Yfir tvö þúsund létust árið 2024.
Yfir tvö þúsund létust árið 2024. Vísir/Vilhelm

Árið 2024 létust flestir vegna sjúkdóma í blóðrásarkerfi, eða rúmlega fjórðungur. Fjórðungur Íslendinga lést vegna æxla.

Árið 2024 létust alls 2607 samkvæmt nýbirtri samantekt Hagstofu Íslands. 27,3 prósent þeirra létust vegna sjúkdóma í blóðrásarkerfi. Það samsvarar 711 látnum einstaklingum. Meðal sjúkdóma sem falla þar undir eru blóðþurrð í hjarta, heilaæðasjúkdómar og bráð hjartaáföll. 

Alls létust 653 vegna æxla sem samsvarar fjórðungi látinna. Tíu þeirra voru með góðkynja æxli en 643 með illkynja æxli, til að mynda í barka, berkju, lungu, endaþarmi eða brjósti. 302 létust vegna sjúkdóma í taugakerfi og skynfærum, þar af 189 úr Alzheimerssjúkdómnum og 53 úr Parkisonveiki.

Níu prósent látinna létust vegna sjúkdóma í öndunarfærum, þar af ellefu úr inflúensu.

Í þessari grein er fjallað um sjálfsvíg. Fólki með sjálfsvígshugsanir er bent á upplýsingasíma heilsugæslunnar s.1700, netspjallið heilsuvera.is, Hjálparsíma Rauða krossins s.1717, á netspjallið 1717.is og á Píeta símann s.552-2218. Þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi er bent á stuðning í Sorgarmiðstöð s. 551-4141, upplýsingasíma heilsugæslunnar s.1700, netspjallið heilsuvera.is og á Píeta símann s.552-2218.

79 létust vegna óhappa, en þar undir falla drukknun, óhappaeitrun og flutningaóhöpp. Fleiri karlar létust vegna óhappa heldur en konur, 48 karlar en 31 kona.

Árið 2024 létust 48 vegna sjálfsvígs eða vísvitandi skaða, 36 karlar og tólf konur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×