Innlent

Tvö hundruð manns bjargað af þjóð­vegi 1

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Vegfarendur sem stigu út úr bílum sínum áttu margir erfitt með að komast aftur inn í þá vegna mikilla vinda.
Vegfarendur sem stigu út úr bílum sínum áttu margir erfitt með að komast aftur inn í þá vegna mikilla vinda. Landsbjörg

Tuttugu og fimm björgunarsveitamenn komu um tvö hundruð manns til bjargar þegar ofsaveður reið yfir á þjóðvegi 1 milli Jökulsárlóns og Skaftafells í dag. Unnið er að því að koma fólkinu af fjöldahjálparstöð á Hofi í Öræfum að Hnappavöllum, þar sem það fær að gista í nótt.

Þetta staðfestir Jón Þór Víglundsson upplýsingafulltrúi Landsbjargar í samtali við fréttastofu. Björgunarsveitir hafa frá því í hádeginu í dag verið við störf í Öræfum við að koma ferðafólki til aðstoðar í slæmu veðri og vondri færð.

Þegar blaðamaður náði tali af Jóni Þór sagði hann stutt þar til aðgerðum björgunarsveitanna lyki. Enn eigi eftir að sækja fólk í tveimur bílum og koma öllum í gistingu að Hnappavöllum.

„Mitt fólk telur að þau hafi snert við nærri tvö hundruð manns í þessu verkefni,“ segir Jón Þór. Aðspurður segir hann það mikinn fjölda. 

„Það var ekki stætt þarna á tímabili. Ég er ekki viss um hvernig veðrið er núna. Fólk fór út úr bílnum sínum og það bara fauk,“ segir Jón Þór.

Því var gripið til þess ráðs að senda út skilaboð í síma á svæðinu þar sem fólk var beðið um að halda sig í bílum sínum þar til hjálp bærist.

Á morgun bíður björgunarsveitanna það verkefni að sækja alla bílana sem skildir voru eftir á veginum í aðgerðunum. Jón Þór segir bílana telja einhverja tugi. 

Aðalheiður Jónsdóttir, teymisstjóri neyðarvarna hjá Rauða krossinum, segir vel hafa gengið að taka á móti fólki á fjöldahjálparstöðinni, sem staðsett er í grunnskólanum Hofgarði á Hofi í Öræfum, í dag.

Hún segir að vel hafi gengið að finna gistingu fyrir alla ferðalangana en sem fyrr segir verða þeir fluttir að Hnappavöllum þar sem þeir koma til með að gista í nótt.

„Þannig að þau þurfa ekki að gista á beddum í nótt,“ segir Aðalbjörg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×