Erlent

Þúsundir Kólumbíumanna mót­mæltu hótunum Trump

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Bandarískir ráðamenn hafa talað opinberlega um frekari aðgerðir í Suður-Ameríku.
Bandarískir ráðamenn hafa talað opinberlega um frekari aðgerðir í Suður-Ameríku. Getty/Andres Rot

Þúsundir mótmæltu í borgum Kólumbíu í gær, í kjölfar hótana Donald Trump Bandaríkjaforseta um mögulegar hernaðaraðgerðir gegn landinu. Mótmælendur voru afar harðorðir í garð forsetans. „Trump er djöfullinn, hann er hræðilegasta manneskja í heimi,“ hefur Guardian eftir einum þeirra.

Annar sagði fjarri lagi að Trump væri „forseti friðarins“, eins og hann hefur sjálfur kallað sig. „Hann er forseti átaka, hann er brjálæðingur,“ sagði hinn 67 ára José Silva. „Bandaríska þingið þarf að gera eitthvað til að koma honum frá völdum. Hann er þrjótur.“

Gustavo Petro, forseti Kólumbíu, hafði hvatt landsmenn til mótmæla eftir að Trump og aðrir ráðamenn vestanhafs hótuðu aðgerðum gegn Kólumbíu, Kúbu og fleiri ríkjum á svæðinu í kjölfar leifturárásarinnar í Venesúela. „Það sem átti sér stað í Venesúela var, að mínu mati, ólöglegt,“ sagði Petro þegar hann ávarpaði þúsundir sem söfnuðust saman á Bolívar-torgi í Bogotá.

Petro og Trump ræddu saman í síma í gær og eins og svo oft áður þá var annað hljóð í Bandaríkjaforseta eftir símtalið en áður en það átti sér stað. „Það var mikill heiður að tala við forseta Kólumbíu,“ sagði Trump og bætti við að hann hlakkaði til að eiga fund með honum á næstunni. Á sunnudag hafði Trump hins vegar kallað Petro „sjúkann mann sem fílaði að framleiða kókaín og selja það til Bandaríkjanna“.

Petro hefur sagst viljugur til að funda með Trump en hefur á sama tíma varað við því að menn láti glepjast. „Orðum þurfa að fylgja görðir,“ sagði hann í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×