Innlent

Brynjar vill aðra setningu og Arn­dís Anna reynir aftur

Árni Sæberg skrifar
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir og Brynjar Níelsson vilja embætti héraðsdómara.
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir og Brynjar Níelsson vilja embætti héraðsdómara. Vísir/Vilhelm

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, fyrrverandi þingmaður Pírata, og Brynjar Níelsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, eru á meðal umsækjenda um embætti héraðsdómara við Héraðsdóm Reykjavíkur. Þau voru það líka síðast þegar embættið var auglýst laust til umsóknar. Þá hlaut Brynjar tæplega eins árs setningu í embætti.

Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að hinn 5. desember 2025 hafi dómsmálaráðuneytið auglýst í Lögbirtingablaði laus til umsóknar tvö embætti héraðsdómara. 

Skipun og setning í boði

Annars vegar hafi verið um að ræða skipun í embætti dómara sem muni hafa starfsstöð við Héraðsdóm Reykjavíkur en sinna störfum við alla héraðsdómstólana eftir ákvörðun dómstólasýslunnar. Hins vegar setningu í embætti dómara með fyrsta starfsvettvang við Héraðsdóm Reykjavíkur meðan á leyfi skipaðs dómara stendur. Umsóknarfrestur hafi runnið út þann 22. desember síðastliðinn.

Umsækjendur um bæði embættin séu:

  • Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir lögmaður,
  • Marta María Friðriksdóttir aðstoðarmaður dómara við Landsrétt,
  • Sindri M. Stephensen dósent og settur héraðsdómari,
  • Sverrir Sigurjónsson lögmaður.

Umsækjendur eingöngu um skipun í embætti dómara með fyrsta starfsvettvang við Héraðsdóm Reykjavíkur séu:

  • Þorbjörg I. Jónsdóttir lögmaður.

Umsækjendur eingöngu um setningu í embætti dómara með fyrsta starfsvettvang við Héraðsdóm Reykjavíkur séu:

  • Brynjar Níelsson lögfræðingur.

Settur frá 14. febrúar til loka síðasta árs

Þau Arndís Anna, Sindri og Brynjar sóttu einnig um embætti dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur þegar það var auglýst í nóvember árið 2024. Brynjar var metinn hæfastur og settur dómari þann 14. febrúar síðastliðinn til og með 31. desember síðastliðnum.

Líkt og áður sagði eru Arndís og Brynjar fyrrverandi þingmenn. Arndís sat á þingi fyrir Pírata frá árinu 2021 og fram að alþingiskosningum árið 2024, en hún sóttist ekki eftir endurkjöri.

Brynjar var þingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn árin 2013 til 2021, og var varaþingmaður frá kosningum 2021. Hann var í þriðja sæti á lista flokksins í Reykjavík norður í síðustu kosningum, en náði ekki inn á þing.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×