Erlent

Segir að taka þurfi mikil­vægar á­kvarðanir

Samúel Karl Ólason skrifar
Friedrich Merz, Keir Starmer, Vólódímír Selenskí og Emmanuel Macron.
Friedrich Merz, Keir Starmer, Vólódímír Selenskí og Emmanuel Macron. AP/Toby Melville

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, er mættur til Englands, þar sem hann fundar með Keir Starme forsætisráðherra Bretlands, Emmanuel Macron, forseta Frakklands og Friedrich Merz kanslara Þýskalands. Selenskí segir að taka þurfi mikilvægar ákvarðanir.

Fundurinn fer fram á Downingstræti 10, þar sem Starmer býr, en Selenskí sagði í gærkvöldi að hann vildi sérstaklega ræða öryggismál við hina leiðtogana. Þá vildi hann ræða loftvarnir Úkraínu vegna ítrekaðra og umfangsmikilla árása Rússa, fjárhag úkraínska ríkisins og auðvitað yfirstandandi viðræður sem Bandaríkjamenn stýra um mögulegan frið í Úkraínu.

Erindrekar frá Bandaríkjunum og Úkraínu hafa fundað stíft undanfarna daga en Selenskí sagði í gær að viðræðurnar hefðu verið innihaldsríkar. Hann sagði að enn þyrfti að skoða vel spurningar um yfirráðasvæði og öryggistryggingar.

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur undanfarin misseri krafist þess að Úkraínumenn hörfi frá öllu Donbas-svæðinu svokallaða. Annars muni Rússar leggja það undir sig.

Trump og meðlimir í ríkisstjórn hans hafa ítrekað gefið til kynna að þeir séu hlynntir því en Úkraínumenn segja það ekki koma til greina. Umrætt svæði þykir mjög víggirt og þar búa fjölmargir Úkraínumenn.

Rússar hafa lagt mesta áherslu á að klára hernám Donbas-svæðisins en það hefur gengið hægt og verið mjög kostnaðarsamt.

Nýlega bárust fregnir af því að í viðræðum sín á milli hefðu evrópskir þjóðarleiðtogar lýst yfir áhyggjum af því að Bandaríkjamenn gætu svikið Úkraínu og Evrópu.

AP fréttaveitan hefur eftir Starmer að hann ætli ekki að þrýsta á Selenskí að samþykkja slæmt friðarsamkomulag.

Trump skaut á Selenskí í gær og gaf til kynna að hann hefði ekki lesið ótilgreindar friðartillögur en úkraínska þjóðin elskaði þær. Þá sagði Trump að það væri úkraínski forsetinn sem stæði í vegi friðar en ekki Pútín. Helsti ráðgjafi Pútíns sagði í gær að þær tillögur sem væru til umræðu núna væru ekki nægjanlegar. Gera þyrfti umfangsmiklar breytingar á þeim.

Sjá einnig: Segir Rússa viljuga en Selenskí ekki

Áður en fundurinn hófst á Downingstræti ræddu leiðtogarnir stuttlega við blaðamenn. Macron sagði Evrópu- og Úkraínumenn hafa mörg spil á hendi. Varnir Úkraínumanna væru að halda og að rússneska hagkerfið ætti undir högg að sækja.

Keir Starmer, Vólódímír Selenskí og kötturinn Larry, frægur íbúi Downingstræti 10.AP/Kin Cheung

Þá sagði Merz að hann væri persónulega fullur efasemda um margar af tillögum Bandaríkjamanna sem ætlað er að koma á friði. Það væri meðal þess sem stæði til að ræða á fundinum.

Starmer sagði að til að koma á friði þyrfti hann að vera sanngjarn og langvarandi.

Þá sagði Selenskí að mikilvægt væri að eining ríkti milli Evrópu og Bandaríkjanna. Bandaríkjamenn hefðu getu sem aðrir hefðu ekki og það sama væri satt um Evrópu.

„Það er þess vegna sem við þurfum að taka mikilvægar ákvarðanir,“ sagði Selenskí samkvæmt BBC.


Tengdar fréttir

„Þetta er stór­kost­legt vanda­mál fyrir Ís­lendinga“

Sérfræðingur í varnar- og öryggismálum segir stöðu NATO áhyggjuefni í kjölfar útgáfu nýrrar þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna og jafnframt stórkostlegt vandamál fyrir Ísland. Evrópa og Bandaríkin eigi ekki lengur samleið í öryggismálum Evrópu. 

Meiri ógn af smábátum í Karíbahafinu en Rússlandi

Donald Trump yngri, elsti sonur forsetans, ýjaði að því á ráðstefnu í Katar í dag að faðir hans gæti hætt stuðningi við Úkraínu. Hann hélt langan reiðilestur yfir stjórnvöldum í Kænugarði og viðleitni þeirra til að halda áfram að verja sig.

„Samrýmist að miklu leyti okkar sýn“

Rússlandsstjórn fagnar nýrri þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna ákaft. Talsmaður Kremlar segir hana að miklu leyti samræmda stefnu Rússa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×