Innlent

Tveir reyndir lög­reglu­menn á­kærðir fyrir brot í starfi

Bjarki Sigurðsson skrifar
Aníta Rut Harðardóttir er ákærð fyrir brot í opinberu starfi.
Aníta Rut Harðardóttir er ákærð fyrir brot í opinberu starfi. Vísir/Anton Brink

Tveir reyndir lögreglumenn hafa verið ákærðir fyrir brot í starfi. Formaður Landssambands lögreglumanna segir miður að málin séu komin á svo alvarlegt stig en þau komi honum verulega á óvart. Lögregla segir málin litin alvarlegum augum.

Lögreglukona á höfuðborgarsvæðinu er ákærð fyrir að hafa flett upp málum í upplýsingakerfi lögreglunnar, LÖKE, sem tengdust nákomnum vandamanni hennar. Hún er grunuð um að hafa skoðað upplýsingar um fólk og mál þeim tengd, án þess að uppflettingarnar tengdust starfi hennar og þannig misnotað sér stöðu sína. Hún opnaði sex mál og skoðaði 23 bókanir tengdar þeim.

Neita bæði sök

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður konunnar, segir það ekki algengt að lögreglufólk sé ákært. 

„Og það hefði ekki átt að gera það í þessu tilviki. En hér erum við og umbjóðandi minn neitar sök,“ segir Vilhjálmur.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson er lögmaður konunnar. Vísir/Anton Brink

Áður verið í kastljósinu

Lögreglukonan, Aníta Rut Harðardóttir, hefur áður vakið mikla athygli í fjölmiðlum, þegar myndir birtust af henni með umdeilda fána á einkennisbúningi sínum. Þá var hún áminnt fyrir niðrandi ummæli um þolendur kynferðisbrota.

Mál annars lögreglufulltrúa sama embættis var einnig þingfest í dag. Sá er ákærður fyrir að hafa látið koma fyrir hlerunarbúnaði í bifreið manns sem var til rannsóknar, án dómsúrskurðar. Hann hafi hljóðritað það sem fram fór í bifreiðinni og brotið þannig gegn friðhelgi einkalífs eigandans. 

Samkvæmt heimildum fréttastofu er fulltrúinn reyndur í svokölluðum skyggingum, rannsóknarúrræði sem felst í stöðugu eftirliti með ferðum þess sem grunaður er um brot. Arnar Kormákur Friðriksson, lögmaður mannsins, vildi ekki tjá sig um málið við fréttastofu en samkvæmt heimildum fréttastofu neitar lögreglufulltrúinn sök.

Arnar Kormákur Friðriksson er lögmaður annars lögreglumannanna. Vísir/Anton Brink

Áminning algengari lausn

Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna, segir ákærurnar koma sér á óvart.

„Oft eru lögreglumenn kannski bara áminntir í starfi. Það er það ferli sem við teljum að dugi stundum til. En þetta kemur á óvart og mér þykir þetta leiðinlegt,“ segir Fjölnir. 

Fjölnir Sæmundsson er formaður Landssambands lögreglumanna. Vísir/Lýður Valberg

Ekki í fyrsta sinn

Á síðustu árum hafa nokkrir lögreglumenn verið ákærðir fyrir uppflettingar í LÖKE.

„Þarna er held ég ákært vegna þess að þetta tengist einhverjum ættingja. Þetta er alls ekki fyrsta svona málið. Það hafa lögreglumenn gengist undir lögreglustjórasátt vegna þess að þeir hafa flett einhverjum upp í lögreglukerfinu sem þeir mega ekki. Þessi einstaklingur kýs að gera það ekki vegna þess að hún telur að hún hafi ekki brotið af sér,“ segir Fjölnir. 

Litið alvarlegum augum

Í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu vegna málanna kemur fram að þau séu litin alvarlegum augum. Mikilvægt sé að lögreglan njóti trausts meðal borgaranna til þess að hún geti rækt hlutverk sitt.

Skýrar kröfur séu gerðar til þess að störf lögreglu séu unnin af fagmennsku og innan þeirra heimilda og reglna sem hún starfar eftir. Verði misbrestur þar á er tekið á þeim málum með viðeigandi hætti.

„Í báðum tilvikunum þegar embættinu varð kunnugt um ætluð brot viðkomandi lögreglumanna voru tafarlaust sendar tilkynningar þar um til embættis héraðssaksóknara sem fer með rannsóknir á meintum brotum lögreglumanna.

Lögreglumennirnir sem um ræðir eru ekki við störf hjá embættinu. Að öðru leyti mun embættið ekki tjá sig um umrædd mál sem nú eru til meðferðar hjá héraðssaksóknara.“

Fréttin var uppfærð kl. 19:30 með tilkynningu lögreglu sem barst fréttastofu 19:23. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×