Innlent

Séreignarleiðin gerð varan­leg og nýtist til tíu ára

Agnar Már Másson skrifar
Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, mun í lok þingsins afhenda Nýsköpunarverðlaun Íslands 2025.
Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, mun í lok þingsins afhenda Nýsköpunarverðlaun Íslands 2025. Vísir/Ívar

Fólk fær áfram að ráðstafa séreignarsparnaði sínum skattfrjálst inn á fasteignalán með 10 ára nýtingartímabili, samkvæmt áformum ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum. Annar húsnæðispakki verður kynntur á nýju ári, að sögn ríkisstjórnarinnar.

Frá 2014 hefur fólk getað nýtt séreignarsparnað skattfrjálst til að kaupa sína fyrstu íbúð. Var þetta meðal annars gert til að mæta húsnæðisvanda eftir efnahagshrunið 2008. Frá 2017 var einnig heimilað að nýta séreignarsparnað skattfrjálst til að greiða inn á höfuðstól íbúðarlána óháð því hvort um fyrstu íbúð væri að ræða.

Í fjárlagafrumvarpi síðustu ríkisstjórnar kom fram að séreignasparnaðarúrræðið yrði afnumið enda áttu lögin ekki að vera varanleg og því hefur árlega þurft að samþykkja framlengingu á heimildinni. Þetta hefur væntanlega skapað óvissu á íbúðamarkaði einkum vegna greiðslumats, bæði meðal kaupenda og lánveitenda.

Nú verður heimildin til að ráðstafa séreign skattfrjálst inn á íbúðalán gerð varanleg, samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar, þannig að allir eigendur íbúða geti nýtt sér hana í 10 ár að hámarki.

Í tillögum ríkisstjórnarinnar kemur fram að með þessum hætti verði stuðningurinn um leið markvissari þar sem hann renni í auknum mæli til fólks á fyrstu árum þess á húsnæðismarkaði.

Þá kemur fram að efnt verði til samráðs um leiðir til að auka séreignarsparnað almennings þannig að fleiri geti átt kost á að nýta sér skattfrjálsa ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á íbúðalán.

Fjármálaráðherra muni á næstunni leggja fram tillögur þar að lútandi.

Þetta og margt annað var kynnt í húsnæðispakka ríkisstjórnarinnar en fjallað var ítarlega um málið í kvöldfréttum Sýnar.

Ríkisstjórnin ætlar auk þessa að fjölga íbúðum í Úlfarsárdal um fjögur þúsund, auka hlutdeildarlán, einfalda regluverk.

Auk þess kemur fram að annar húsnæðispakki verði kynntur á fyrri hluta ársins 2026. Hann muni meðal annars snúa að því hvernig ríkið getur liðkað fyrir uppbyggingu nýrra íbúðahverfa – eftir samtal við sveitarfélögin og vinnustofu félags- og húsnæðismálaráðuneytisins um þetta efni. 

Þar verði einnig tekið á uppbyggingu íbúða á ríkislóðum, breytingu ríkiseigna í íbúðir og regluverki á leigumarkaði eftir að frumvarp um skráningarskyldu leigusamninga mun hafa hlotið afgreiðslu á Alþingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×