Erlent

Lög­reglan í Ósló beitti mót­mælendur tára­gasi

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Lögregla beitti táragasi á mótmælendur en segir engan hafa hlotið líkamlegan skaða af.
Lögregla beitti táragasi á mótmælendur en segir engan hafa hlotið líkamlegan skaða af. AP

Tuttugu og tveir voru handteknir og táragasi var beitt þegar til átaka kom á mótmælum við Ullevaal-leikvanginn í Ósló. Þar atti norska landsliðið kappi við það ísraelska í undankeppni heimsmeistaramótsins í knattspyrnu á næsta ári.

Um þúsund manns mótmæltu fyrir þátttöku Ísraela í alþjóðlegum íþróttakeppnum fyrir utan leikvanginn. Viðbúnaður lögreglu vegna mögulegra átaka var umtalsvert. Fjöldi lögreglumanna voru á vettvangi íklæddir óeirðabúningum og með hjálma með andlitshlífum, gasgrímur og kylfur.

Til átaka kom þegar mótmælendur reyndu að brjótast í gegnum girðingu.AP

Lögregla fylgdi hópi norskra stuðningsmanna sem gengu inn á leikvanginn sveiflandi ísraelskum fánum að innganginum til að koma í veg fyrir samstuð. Þegar leikurinn hófst var enn talsvert af mótmælendum fyrir utan, og sömuleiðis talsvert af lögreglumönnum. Lögreglan hafði komið girðingar til að halda mótmælendum fjarri leikvanginum.

Þegar um klukkutími var liðinn af leiknum hafði talsvert fækkað í hópi mótmælenda en enn töldu þeir um tvö hundruð. Það kastaðist í kekki milli mótmælenda og lögreglunnar þegar hinir fyrrnefndu reyndu að brjóta sér leið í gegnum girðingarnar. Lögreglan svaraði með táragasi.

Lögregla beitti táragasi á mótmælendur en segir engan hafa hlotið líkamlegan skaða af.AP

Gabriel Langfeldt yfirlögregluþjónn og yfirmaður á vettvangi sagðist ekki hafa haft annarra kosta völ.

„Við reyndum að gefa fyrirmæli, þeim var ekki fylgt og því var táragasi beitt eftir að þeir rifu niður girðingu,“ sagði hann í samtali við Verdens gang.

Lögreglan hóf þá að leiða mótmælendur burt frá leikvangssvæðinu og þá kom aftur til átaka og sautján mótmælendur voru handteknir. Norðmenn sigruðu Ísrael af öryggi og unnu leikinn með fimm mörkum gegn engu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×