Innlent

Síma­frí en ekki síma­bann

Bjarki Sigurðsson skrifar
Guðmundur Ingi Kristinsson er mennta-og barnamálaráðherra.
Guðmundur Ingi Kristinsson er mennta-og barnamálaráðherra. Vísir/Anton Brink

Barnamálaráðherra segir símabann í grunnskólum ekki á dagskrá, heldur símafrí. Börn hafi kallað eftir samræmdum reglum milli skóla og mikilvægt sé að símar trufli ekki kennslu, þótt skólar eigi að nýta sér nútímatækni. 

Á föstudag birti Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, frumvarp í samráðsgátt um breytingu á lögum er varða síma- og snjalltækjanotkun í grunnskólum. Með frumvarpinu fær ráðherra skýra heimild til að setja reglugerð um notkun tækjanna í skóla- og frístundastarfi. Ráðherra segist þó ekki ætla að leggja á allsherjarsímabann.

„Markmiðið er að koma á símafríi í skólum. Sjá til þess að símar séu ekki að trufla skólastarf barnanna okkar,“ segir Guðmundur Ingi. „Það er komið símabann, símafrí eða hvað við getum kallað það hjá 75 prósent skóla á höfuðborgarsvæðinu og fimmtíu prósent á landsbyggðinni. Við ætlum að samræma það. Við höfum heyrt kröfur frá börnunum um að þau vilji samræma þetta milli skóla.“

Guðmundur segist vera að smíða reglugerð sem verði gerð í samráði við skólana og börnin. Kennsla verði að nýta sér nútímatækni.

Þú hefur áður talað fyrir símabanni, sérðu fram á að þetta verði þannig?

„Nei, því þá þurfum við að fara að gera allskonar undantekningar. Það eru sum börn með fötlun eða glíma við veikindi og þurfa að vera með símann hjá sér. Við getum ekki stoppað það. Við ætlum að setja þannig reglur um þetta, að það viti allir hverjir mega, hvað má og hvað má ekki,“ segir Guðmundur Ingi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×