Erlent

Opna í Kaup­manna­höfn en loka loft­rýminu yfir Osló einnig vegna dróna­

Eiður Þór Árnason skrifar
Lögregla var á vettvangi við Kaupmannahafnarflugvöll í kvöld.
Lögregla var á vettvangi við Kaupmannahafnarflugvöll í kvöld. EPA/STEVEN KNAP

Flugumferð um Kastrupflugvöll í Kaupmannahöfn er hafin að nýju eftir að hún var stöðvuð fyrr í kvöld vegna óleyfilegrar umferðar dróna. Farþegar eru sagðir geta átt von á frekari töfum og að flugferðum þeirra verði aflýst.

Á sama tíma var loftrýminu yfir Óslóarflugvelli nýverið lokað vegna drónaumferðar. Verður flugvélum beint á næstu flugvelli, að sögn flugmálayfirvalda. Áður var greint frá því að dróni sem sást nálægt flugvellinum í Osló hefði ekki haft áhrif á flugumferð.

Tillkynt var um lokunina í Osló klukkan 22:30 að íslenskum tíma og er norska lögreglan með viðbúnað á flugvellinum. Lögregla telur ekki vera tengsl milli atvikana í Osló og Kaupmannahöfn að svo stöddu. Fréttastofur DR og NRK greina frá þessu.

Danska lögreglan veitti upplýsingar um hvað átti sér stað við Kaupmannahafnarflugvöll á blaðamannafundi klukkan 23:30 að íslenskum tíma. Tveir til þrír „stærri“ drónar sáust á svæðinu, að sögn lögreglu. 

Jakob Hansen, aðstoðarlögreglustjóri hjá lögreglunni í Kaupmannahöfn, segir að um klukkan 20:30 að staðartíma hafi borist tilkynning frá Naviair um að loftrýminu hafi verið lokað eftir að drónar sáust á svæðinu. Lögreglan hafi sömuleiðis sjálf orðið vör við dróna í loftrýminu.

Hansen bætti við að lögreglan hafi ráðist í ítarlega rannsókn á málinu í samstarfi við leyniþjónustu lögreglunnar PET, danska herinn og erlend yfirvöld. Ráðist hafi verið í fjölmargar aðgerðir en aðstoðarlögreglustjórinn vildi ekki útskýra hvers eðlis þær eru.

Drónarnir hafi að lokum yfirgefið svæðið en ekki verið teknir niður af yfirvöldum. Lögreglan hefur ekki upplýst hvaðan drónarnir komu. 

Hansen benti á að svipuð staða hafi komið upp í Osló og því muni lögreglan eiga náið samstarf við norsk yfirvöld, meðal annars til að rannsaka möguleg tengsl. Lögreglan verði áfram með viðbúnað á flugvellinum í Kaupmannahöfn. 

Hún hefur áður greint frá því að tveir til þrír drónar hafi sést við flugvöllinn en Hansen segir að á þessum tímapunkti sé ekki alveg ljóst hversu margir þeir voru. Nú sé reynt að komast að því hvers konar dróna var um að ræða og hvaðan þeir komu. Lögreglan viti ekki hvert þeir stefni eftir að þeir eftir að þeir yfirgáfu loftrýmið. 

„Við vildum óska ​​þess að við vissum hvar þeir væru á þessum tímapunkti en við miðum vinnu okkar við aðstæðurnar hverju sinni,“ hefur DR eftir Jakob Hansen.

Fréttin er í vinnslu og verður uppfærð.


Tengdar fréttir

Kastrup lokað vegna drónaflugs

Kastrup flugvelli í Kaupmannahöfn hefur verið lokað og flugumferð stöðvuð vegna drónaflugs á svæðinu. Lögregla er á vettvangi. Þá voru tveir handteknir í Osló í Noregi vegna drónaflugs skammt frá herstöð, en ekki er talið að málin tengist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×