Innlent

Guð­rún Björk Krist­munds­dóttir hjá Bæjarins beztu er látin

Atli Ísleifsson skrifar
Guðrún Björk Kristmundsdóttir tók á sínum tíma við rekstrinum af föður sínum, Kristmundi Elí Jónssyni.
Guðrún Björk Kristmundsdóttir tók á sínum tíma við rekstrinum af föður sínum, Kristmundi Elí Jónssyni. Vísir/Vilhelm

Guðrún Björk Kristmundsdóttir, eigandi Bæjarins beztu, er látin, 63 ára að aldri.

Greint er frá andlátinu í Morgunblaðinu í morgun en Guðrún andaðist á gjörgæsludeild Landspítalans við Hringbraut fyrsta dag septembermánaðar eftir erfið veikindi.

Guðrún fæddist í Reykjavík 21. febrúar 1962 og þriðja í röð fjögurra systkina. Foreldrar hennar voru Sigríður Júlíusdóttir og Kristmundur Elí Jónsson.

Guðrún stýrði Bæjarins bestu pylsum um margra ára skeið en það var afi hennar, Jón Sveinsson, sem var meðal þeirra sem hófu rekstur Bæjarins beztu árið 1937. Kristmundur, faðir Guðrúnar, tók svo við rekstrinum af föður sínum um stýrði fyrirtækinu í áratugi.

Í tíð Guðrúnar sem framkvæmdastjóri stækkaði Bæjarins beztu mikið og hefur sölustöðum fjölgað á síðustu árum. Eru sölustaðirnir nú tólf talsins að því er segir á heimasíðu Bæjarins beztu.

Baldur Ingi, sonur Guðrúnar og Halldórs Garðars Björnssonar, fyrrverandi eiginmanns Guðrúnar, hefur tekið við rekstrinum svo um er að ræða fjórðu kynslóðina sem stýrir fyrirtækinu.

Guðrún lætur eftir sig soninn Baldur Inga, sam­býl­is­manninn Jón­as Björn Björnsson, tvö stjúp­börn, Guðjón og Helgu Björgu, og þrjú barna­börn.


Tengdar fréttir

Enginn pilsner í pylsu­­soðinu hjá Bæjarins bestu

„Þetta með Pilsnerinn, ég er búin að heyra þetta í svona þrjátíu ár og ég veit ekki hvaðan þessi saga kemur en hún er mjög lífsseig,“ segir Guðrún Björk Kristmundsdóttir eigandi Bæjarins bestu í viðtali í Bakaríinu síðasta laugardag. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×