Innlent

Bílar fullir af bensínbrúsum séu úti um alla borg

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Arnar Þór Ólafsson framkvæmdastjóri Fraktlausna er langþreyttur á ítrekuðum þjófnaði á díselolíu fyrirtækisins.
Arnar Þór Ólafsson framkvæmdastjóri Fraktlausna er langþreyttur á ítrekuðum þjófnaði á díselolíu fyrirtækisins. Vísir/Ívar Fannar

Hundruðum lítra af díselolíu fyrir milljónir króna hefur verið stolið frá flutningafyrirtæki í borginni. Framkvæmdastjóri segist telja höfuðborgarsvæðið fullt af bílum stútfullum af stolnum bensín- og olíubrúsum, fjölmörg önnur fyrirtæki hafi lent í viðlíka þjófnaði. Lögregla náði þjófi í slíkum erindagjörðum glóðvolgum í Bústaðahverfi í nótt.

Greint var frá því í dag að þjófur hafi verið gripinn glóðvolgur af eiganda vörubíls í nótt í Bústaðahverfi í Reykjavík þar sem þjófurinn var í óðaönn við að tappa díselolíu af bílnum. Lögregla segir að slíkur þjófnaður hafi færst mjög í aukana að undanförnu en um helgina var hundruðum lítra af olíu stolið á lóð flutningafyrirtækisins Fraktlausna á Laugarnesi í Reykjavík. Arnar Þór Ólafsson framkvæmdastjóri er langþreyttur á ástandinu.

Fjöldi annarra fyrirtækja orðið fyrir þjófnaði

„Það er búið að taka núna af okkur fyrir rétt rúma milljón í dísel og síðan erum við reyndar búin að fara í aðgerðir til að reyna að sporna við þessu og ná mönnum við verknaðinn,“ segir Arnar. Þjófarnir bökkuðu bíl sínum að flutningabílum fyrirtækisins og töppuðu svo olíu af bílunum. Allt saman náðist á öryggismyndavél og hafa forsvarsmenn fyrirtækisins nú kært þjófnaðinn til lögreglu.

Um er að ræða fimmta skiptið sem Fraktlausnir verða fyrir slíkum þjófnaði á stuttum tíma og segist Arnar telja að heildartapið nemi um þremur milljónum hið minnsta. Hann segist vita af fleiri flutningafyrirtækjum í sömu stöðu, málið hafi verið tilkynnt til lögreglu sem Arnar segist óska að bregðist betur við.

„Það eru mörg önnur fyrirtæki sem eru búin að lenda í þessu. ég veit um fjögur fyrirtæki sem eru búin að lenda í þessu, búin að skila inn kæru, það er svipað og við, það er lítið gert eða gerist lítið.“

Greint var frá því í maí að íbúar við Miklubraut hefðu áhyggjur af óhreyfðum bíl sem lagt var í götunni og var fullur af bensínbrúsum. Samkvæmt heimildum fréttastofu tengist bíllinn álíka þjófnaði og þeim sem fór fram á bílaplani Fraktlausna. Arnar segist telja borgina fulla af slíkum bílum.

Klippa: Milljónatap vegna þjófnaðar og brúsar úti um alla borg

„Það eru lagerar út um allt höfuðborgarsvæðið. Upp í Seljahverfi eru fullt af bílum sem eru fullir af bensín og olíu og það eru bílar niður á Miklubraut sem er margbúið að kvarta yfir og tilkynna þetta til lögreglu og heilbrigðiseftirlits en lítið gerist.“


Tengdar fréttir

Gripinn glóðvolgur í skjóli nætur við að tappa af bílnum

Óprúttinn þjófur var gripinn glóðvolgur af eiganda vörubíls í nótt í Bústaðahverfi í Reykjavík þar sem hann var í óðaönn við að stela díselolíu af bílnum. Fleiri nýleg dæmi eru um slíkan þjófnað en síðustu helgi var hundruðum lítra af olíu stolið á lóð flutningafyrirtækis. Lögregla segir of snemmt að segja til um hvort málin tengist en þjófnaður sem þessi hafi færst mjög í aukana í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×