Erlent

Segir nýjan við­skipta­samning þann „stærsta í sögunni“

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Von der Leyen og Trump tókust í hendur á Turnberry-golfvellinum í Skotlandi, sem er í eigu Trump.
Von der Leyen og Trump tókust í hendur á Turnberry-golfvellinum í Skotlandi, sem er í eigu Trump. AP

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Ursula von der Leyen forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins undirrituðu í dag viðskiptasamning sem felur í sér fimmtán prósenta heildartoll á innflutning Evrópusambandsríkja til Bandaríkjanna.

Von der Leyen og Trump hittust að því tilefni á golfvelli Trump í Skotlandi í dag. Samningurinn gjörminnkar hættu á viðskiptastríði sem hefur verið yfirvofandi að undanförnu.

„Viðræðurnar voru mjög áhugaverðar. Ég hugsa að báðar hliðar græði á þessu,“ hefur AP eftir Trump. Í frétt BBC lýsir Trump samningnum sem þeim „stærsta í sögunni“.

Von der Leyen sagði að samningurinn kæmi til með að tryggja stöðugleika og fyrirsjáanleika í viðskiptum beggja vegna Atlantshafsins. 

Nokkur atriði í samningnum sem snúa að viðskiptum Bandaríkjanna og Evrópusambandsins eru enn á huldu. Trump sagði eftir fundinn að Evrópusambandið hefði lofað að verja 750 milljörðum Bandaríkjadala í bandaríska orku og 600 milljörðum meira en hingað til í fjárfestingar á bandarískum markaði.

Á blaðamannafundi eftir fundinn sagði von der Leyen þó að milljörðunum 750 verði varið í orku á næstu þremur árum. Fjárfestingarnar verði til þess að Evrópusambandið þurfi ekki að reiða sig jafn mikið á Rússland í olíukaupum. 

Þjóðarleiðtogar Evrópusambandsins segjast fegnir að samningur sé í höfn, þar á meðal Friedrich Merz Þýskalandskanslari, Giorgia Meloni forsætisráðherra Ítalíu og Micheal Martin forsætisráðherra Írlands. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×