Innlent

Segja Lauga­veginn orðinn of vin­sælan

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Laugavegur er gönguleið milli Landmannalauga og Þórsmerkur.
Laugavegur er gönguleið milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Vísir/Vilhelm

Ísland er leiðandi á sviði ferðamennsku á alþjóðasviðinu og hefur á undanförnum árum laðað að sér gífurlegan fjölda ferðamanna. Laugavegur, ein vinsælasta gönguleið hálendisins, er farin að líða fyrir vinsældirnar vegna margmennis og á í hættu á að „deyja úr velgengni.“

Þetta er niðurstaða rannsóknar þriggja fræðimanna á sviði útivistar og íþrótta við spænska háskólann Valencia Catholic University Saint Vincent Martyr sem ber heitið „Að deyja úr velgengni: Ferðamenn eða göngumenn á íslensku gönguleiðinni Laugavegi,“ og Ríkisútvarpið vakti athygli á.

Rannsóknin byggir á viðtölum við átján sérfræðinga á sviði íslenskrar ferðaþjónustu og íslenskrar náttúru.

„Laugavegur er auglýstur sem villtur og friðsæll staður þar sem hægt er að njóta einveru og vera í nánum tengslum við náttúruna. Hátt þjónustustig, auðveldar samgöngur og vinsældir leiðarinnar hafa gert það að verkum að fjöldi ferðamanna hefur margfaldast undanfarin ár.“

Sagt er að hinn mikli fjöldi ferðamanna sé farin að valda óánægju meðal þeirra sem sækja í einveru, ævintýri og návist við náttúruna.

Lagt er til að þjónustustig á gönguleiðinni verði lækkað til að stemma stigu við margmenninu, og beina hinum almenna ferðamanni annað.

Skýrsluhöfundar segja að yfirvöld þurfi að fara taka ákvörðun um hvort áfram eigi að markaðssetja Laugaveginn sem einstaka náttúruupplifun með takmarkaðri þjónustu eða sem áfangastað fyrir fjöldaferðamennsku.

Höfundar telja að skynsamlegast væri að lækka þjónustustig svo Laugavegurinn haldist sem einstök náttúruupplifun fyrir reyndara göngufólk. Sagt er að þeir sem sæki í slíkar göngur hafi lágan þröskuld fyrir margmenni og of mikilli þjónustu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×