Innlent

Loft­gæði mun betri á höfuð­borgar­svæðinu

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Íbúar höfuðborgarsvæðisins geta andað léttar í dag en mega eiga von á rigningu, súld og þokulofti.
Íbúar höfuðborgarsvæðisins geta andað léttar í dag en mega eiga von á rigningu, súld og þokulofti. Vísir/Vilhelm

Loftgæði á höfuðborgarsvæðinu mælast töluvert betri í dag en í gær. Enn er þó svifryksmengun yfir Reykjanesskaga. Á miðvikudag gæti síðan aftur farið að byggjast upp mengun á gosstöðvunum vegna hægs vinds.

Fyrir utan Laugarnes og Hvaleyrarholt, þar sem loftgæðin mælast sæmileg vegna gosmengunar, eru loftgæðin á höfuðborgarsvæðinu alls staðar góð eða mjög góð. Ef farið er út á Reykjanesið mælast loftgæði óholl fyrir viðkvæma í Sandgerði, Njarðvík og Vogum á Vatnsleysuströnd vegna svifryksmengunar.

Til marks um batnandi loftgæði hefur Vinnuskóli Reykjavíkur, sem felldi niður öll störf almennra hópa í garðyrkju vegna gosmengunar í gær, lýst því yfir á Facebook að í dag verði þar hefðbundinn vinnudagur.

„Það var smá norðlæg átt í nótt, svo kom rigningin og súldin þannig þetta hreinsaðist að hluta til. En það er ennþá samt svolítil svifryksmengun yfir Reykjanesskaganum. Brennisteinsdíoxíð hefur minnkað mikið,“ segir Þorsteinn V. Jónssson, veðurfræðingur.

Lægðardrag liggur yfir landinu og verður rigning eða súld með köflum í dag og sums staðar þokuloft. Vegna vestlægs vinds berst gosmengunin til austurs þegar líður á daginn. Mengunin gæti þá borist yfir á Suðurland en þó í minni mæli en í gær. 

Gosmengunin og brennisteinsdíoxíðið er þó ekki alveg á bak og burt.

„Á morgun er mjög hægur vindur þannig það gæti aftur farið að byggjast upp mengun á gosstöðvunum á morgun, miðvikudag,“ sagði Þorsteinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×