Ógreindir víkingar Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir og Álfhildur Leifsdóttir skrifa 27. júní 2024 07:00 Getur verið að víkingarnir sem réðu hér öllu um þar síðustu aldamót hafi verið meira og minna ofvirkir? Að þeir hafi siglt yfir úfin höf vegna þess að þeir voru mögulega búnir að brenna allar brýr að baki sér eða fengu einfaldlega þessa frábæru hugmynd og létu vaða! Sá kraftur og þor sem landnámsfólk sýndi með því að rífa sig upp og fara út í óvissuna getur hafa verið birtingarmynd ofvirkni, af framkvæma fyrst og hugsa svo. Kannski eru Íslendingasögurnar okkar hetjusögur af fólki með ofvirkni, fólki sem var harðduglegt, eldklárt og útsjónarsamt þegar kom að því að bjarga sér og um leið svo þrjósk og þver að þau neituðu að gefast upp þegar kom að því að búa í harð- og strjábýlu landi. Mögulega hafa þessir eiginleikar sem við bæði lofum og löstum erfst og ýmist magnast eða dofnað í ættbogum svo öldum skiptir. Það gæti skýrt hvers vegna dágóður hópur Íslendingar er með ofvirkni, sem er truflun í boðefnakerfi heilans og að miklu leyti arfgengt. Talið er að 5-10% barna á Íslandi séu með ADHD eða um 4500 - 9000 börn af tæplega 90 þúsund börnum. Samkvæmt svari ráðherra heilbrigðismála eru um 8 þúsund börn og ungmenni 18 ára og yngri á lyfjum vegna ofvirkni. Hvers vegna er verið að fárast yfir lyfjanotkun þegar tölur sýna að það er í takt við þann fjölda sem áætlað er að sé með ofvirkni? Umræða ráðamanna á opinberum vettvangi er búin að stórskaða ímynd málaflokksins. Fordómar í samfélaginu einkennast af vanþekkingu og ýta undir frekari vanmátt þeirra sem eru með ofvirkni. Slíkir fordómar eru upplýstri þjóð til skammar. Að tjá sig um eitthvað sem viðkomandi hefur hvorki upplifað né reynt á eigin skinni og án þekkingar á fræðum eða faglegri hlið málaflokksins er það einnig. Lágmarks krafan hlýtur alltaf að vera sú að ráðamenn kynni sér málið til hlítar og fá til samtalsins þau sem kljást við einkenni og afleiðingar ofvirkni alla daga. Það er auðvelt fyrir þau sem ekki eru ofvirk sjálf að falla í gryfju fordæmingar, efast og trúa ekki á þær aðferðir sem taldar eru áhrifaríkar. Lyf er ekki endilega eina leiðin þó þau hjálpi mörgum, margt annað getur hjálpað börnum og ungmennum með ofvirkni. Skipulag skiptir miklu máli, að hafa góða greiningu til að styðjast við í leik-, grunn- og framhaldsskóla og fá stoðþjónustu við hæfi. Hollt mataræði og hreyfing eru mikilvæg atriði, en eitt áhyggjuefni er einmitt að aðeins 38% nemenda í 6.-10. bekk taka þátt í tómstundum samkvæmt umboðsmanni barna, en hreyfing getur verið eitt af lykilatriðum þess að takast á við ofvirkni. Ef þetta allt er til staðar, sem og gott samstarf heimilis og skóla og jafnvel lyfjagjöf getur barn og ungmenni með ofvirkni átt dásamlegt og innihaldsríkt líf. Börn og ungmenni með ofvirkni eru nefnilega ekki sjaldgæf, skrítin, óalandi eða óferjandi. Þau eru stór hópur allskonar barna og ungmenna með fjölbreytta hæfileika og áhugamál sem vilja einfaldlega tilheyra og fá svigrúm og tækifæri til að vera viðurkennd eins og þau eru. Að samfélagið gefi sér tíma til að fræðast og taka tilliti til þeirra þarfa. Að býsnast yfir fjölda greininga hjálpar engum. Samfélagið og skólakerfið er stöðugt að reyna að koma til móts við þennan hóp en miklu betur má ef duga skal. Hraði samfélagins og uppbygging þess, mikil kyrrseta, óhollara mataræði og mikið áreiti bæði félagslegra samskipta og miðla, krefst þess að hugað sé enn frekar að þessum hópi barna svo þau þroskist og dafni í takt við eigin þarfir. Kannski erum við upplýstari um það í dag að lyf geta gert gagn og hjálpað til við að afrugla taugakerfi sem eru komin að eða yfir þolmörk. Að lyf geti hjálpað til á meðan verið er að ná jafnvægi og koma lífinu í einhvern takt eða þurfi að vera til staðar ævilangt allt eftir þörfum hvers og eins. Það ræður enginn því hvernig taugakerfi viðkomandi er samansett en að gagnrýna aðferðir og lyf sem gera ofvirkum kleift að lifa lífi sínu með meiri reisn, sjálfstrausti og sjálfstjórn er vanhugsað. Það sem einkennir einstaklinga með ofvirkni er oft frumkvæði, áræðni til að prófa nýja hluti og þor til að taka áhættu. Kraftur, mælska, listfengni, þrauseigja og forvitni ásamt hraðri og skapandi hugsun, innsæi og ímyndunarafli eru líka einkenni ofvirkni sem auðga og dýpka þekkingu og lausnaleit. Ofvirkni getur nefnilega verið ofurkrafturinn sem þarf til að ná langt og framkvæma án hiks og hugmyndirnar geta orðið svo ótal margar. Þegar kemur að því að virkja þær þarf viðkomandi oft stuðning og þar þarf að huga að styrkleikum og áhugamálum, samskiptum og félagslegri stöðu. Góð og raunsæ sjálfsmynd er forsenda velgengni í lífinu og lykilatriði allra er að fá tækifæri til að upplifa sigra í daglegu lífi. Skammir og neikvætt viðmót brýtur sjálfsmyndina niður og eykur hættu á kvíða og depurð sem einmitt hrjáir of mörg börn í dag. Verum góðar fyrirmyndir, fræðumst og tökum tillit til fjölbreyttra þarfa og verum þannig hluti af styðjandi samfélagi fyrir öll börn. Börn með ofvirkni augða og hressa, bæta og kæta, fái þau styðjandi umhverfi og viðurkenningu á því að þau eru frábær einmitt eins og þau eru. Búum svo um hnútana að þegar fullorðinsárin taka við og fólk með ofurkrafta fer út í lífið liti það heiminn fjölbreyttum litum, fullt sjálfstrausts og með sterka sjálfsmynd. Því eins og segir í áherslum okkar Vinstri grænna; tækifæri framtíðar byggjast á að við öll getum ræktað hæfileika okkar, ekki má líða mismunun á fólki og síðast en ekki síst er það hlutverk opinberrar þjónustu, mennta- og velferðarkerfis að stuðla að jöfnuði og félagslegu réttlæti fyrir alla íbúa þessa lands. ADHD samtökin halda úti blómlegri starfsemi þar sem öll geta sótt sér fræðslu og ráðgjöf er varðar hið fjölbreytta róf ofvirkni/ADHD og margvíslegar birtingarmyndir þess. Við mælum eindregið með að kynna sér einkenni, úrræði og námskeið fyrir börn og annað fólk með ofvirkni á heimasíðu samtakanna. Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir, leik- og grunnskólakennari, oddviti VG í Suðurkjördæmi og stjórnarkona í VG. Álfhildur Leifsdóttir, grunnskólakennari, oddviti VG og óháðra í Skagafirði og formaður sveitarstjórnarráðs VG. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir Álfhildur Leifsdóttir ADHD Skóla- og menntamál Mest lesið Glæpur eða gjörningur? Sigfús Aðalsteinsson,Baldur Borgþórsson Skoðun Dýrkeypt vinavæðing á vakt lögreglustjórans Ólafur Hauksson Skoðun Börn í biðröð hjá Sýslumanni Helga Vala Helgadóttir Skoðun Svöng Eflingarbörn Guðmundur Ingi Þóroddsson Skoðun Úr myrkri í von – Saga Grindvíkinga Bryndís Gunnlaugsdóttir Skoðun Ríkisstjórnin hækkar leigu stúdenta Arent Orri J. Claessen,Viktor Pétur Finnsson Skoðun COP30, Ísland, lífsskilyrði og loftslagsvá Kamma Thordarson Skoðun Orkuskiptin heima og að heiman Eiríkur Hjálmarsson Skoðun Annar í feðradegi…og ég leyfi mér að dreyma Ólafur Grétar Gunnarsson Skoðun Pops áttu p? Benedikt S. Benediktsson Skoðun Skoðun Skoðun Íslandsklukkan: Markleysa frá upphafi Gunnar Salvarsson skrifar Skoðun Um stöðu íslenskukennslu á Íslandi Kjartan Jónsson skrifar Skoðun Gasa: Löng og torfarin leið til endurreisnar Philippe Lazzarini skrifar Skoðun Pops áttu p? Benedikt S. Benediktsson skrifar Skoðun Ríkisstjórnin hækkar leigu stúdenta Arent Orri J. Claessen,Viktor Pétur Finnsson skrifar Skoðun Annar í feðradegi…og ég leyfi mér að dreyma Ólafur Grétar Gunnarsson skrifar Skoðun Orkuskiptin heima og að heiman Eiríkur Hjálmarsson skrifar Skoðun Fyrir hvað stöndum við? Brynja Hallgrímsdóttir skrifar Skoðun COP30, Ísland, lífsskilyrði og loftslagsvá Kamma Thordarson skrifar Skoðun Dýrkeypt vinavæðing á vakt lögreglustjórans Ólafur Hauksson skrifar Skoðun Svöng Eflingarbörn Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar Skoðun Úr myrkri í von – Saga Grindvíkinga Bryndís Gunnlaugsdóttir skrifar Skoðun Þak yfir höfuðið er mannréttindi ekki forréttindi Kristján Þórður Snæbjarnarson skrifar Skoðun Glæpur eða gjörningur? Sigfús Aðalsteinsson,Baldur Borgþórsson skrifar Skoðun Við erum að vinna fyrir þig Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir skrifar Skoðun Börn í biðröð hjá Sýslumanni Helga Vala Helgadóttir skrifar Skoðun Sofandaháttur Íslands í nýrri iðnbyltingu Sigvaldi Einarsson skrifar Skoðun Byggjum fyrir síðustu kaupendur Friðjón R. Friðjónsson skrifar Skoðun Það sem við segjum er það sem við erum Guðný Björk Pálmadóttir skrifar Skoðun Óásættanleg bið, fordómar og aðrar hindranir í kerfinu Helga F. Edwardsdóttir skrifar Skoðun Má bjóða þér einelti? Linda Hrönn Bakkmann Þórisdóttir skrifar Skoðun Fyrir hverja eru ákvarðanir teknar? Helga Þórisdóttir skrifar Skoðun Þá var „útlendingur“ ekki sá sem kom frá framandi heimsálfum Martha Árnadóttir skrifar Skoðun Kann barnið þitt að hjóla? Sara Björg Sigurðardóttir skrifar Skoðun Er ég Íslendingur? En þú? Jón Pétur Zimsen skrifar Skoðun Samkeppni um hagsæld Ríkarður Ríkarðsson skrifar Skoðun Inngilding – eða aðskilnaður? Jasmina Vajzović Crnac skrifar Skoðun Húsnæðispakki fyrir unga fólkið og framtíðina Anna María Jónsdóttir skrifar Skoðun Þegar úrvinnsla eineltismála klúðrast Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir skrifar Skoðun Virðum réttindi intersex fólks Daníel E. Arnarsson skrifar Sjá meira
Getur verið að víkingarnir sem réðu hér öllu um þar síðustu aldamót hafi verið meira og minna ofvirkir? Að þeir hafi siglt yfir úfin höf vegna þess að þeir voru mögulega búnir að brenna allar brýr að baki sér eða fengu einfaldlega þessa frábæru hugmynd og létu vaða! Sá kraftur og þor sem landnámsfólk sýndi með því að rífa sig upp og fara út í óvissuna getur hafa verið birtingarmynd ofvirkni, af framkvæma fyrst og hugsa svo. Kannski eru Íslendingasögurnar okkar hetjusögur af fólki með ofvirkni, fólki sem var harðduglegt, eldklárt og útsjónarsamt þegar kom að því að bjarga sér og um leið svo þrjósk og þver að þau neituðu að gefast upp þegar kom að því að búa í harð- og strjábýlu landi. Mögulega hafa þessir eiginleikar sem við bæði lofum og löstum erfst og ýmist magnast eða dofnað í ættbogum svo öldum skiptir. Það gæti skýrt hvers vegna dágóður hópur Íslendingar er með ofvirkni, sem er truflun í boðefnakerfi heilans og að miklu leyti arfgengt. Talið er að 5-10% barna á Íslandi séu með ADHD eða um 4500 - 9000 börn af tæplega 90 þúsund börnum. Samkvæmt svari ráðherra heilbrigðismála eru um 8 þúsund börn og ungmenni 18 ára og yngri á lyfjum vegna ofvirkni. Hvers vegna er verið að fárast yfir lyfjanotkun þegar tölur sýna að það er í takt við þann fjölda sem áætlað er að sé með ofvirkni? Umræða ráðamanna á opinberum vettvangi er búin að stórskaða ímynd málaflokksins. Fordómar í samfélaginu einkennast af vanþekkingu og ýta undir frekari vanmátt þeirra sem eru með ofvirkni. Slíkir fordómar eru upplýstri þjóð til skammar. Að tjá sig um eitthvað sem viðkomandi hefur hvorki upplifað né reynt á eigin skinni og án þekkingar á fræðum eða faglegri hlið málaflokksins er það einnig. Lágmarks krafan hlýtur alltaf að vera sú að ráðamenn kynni sér málið til hlítar og fá til samtalsins þau sem kljást við einkenni og afleiðingar ofvirkni alla daga. Það er auðvelt fyrir þau sem ekki eru ofvirk sjálf að falla í gryfju fordæmingar, efast og trúa ekki á þær aðferðir sem taldar eru áhrifaríkar. Lyf er ekki endilega eina leiðin þó þau hjálpi mörgum, margt annað getur hjálpað börnum og ungmennum með ofvirkni. Skipulag skiptir miklu máli, að hafa góða greiningu til að styðjast við í leik-, grunn- og framhaldsskóla og fá stoðþjónustu við hæfi. Hollt mataræði og hreyfing eru mikilvæg atriði, en eitt áhyggjuefni er einmitt að aðeins 38% nemenda í 6.-10. bekk taka þátt í tómstundum samkvæmt umboðsmanni barna, en hreyfing getur verið eitt af lykilatriðum þess að takast á við ofvirkni. Ef þetta allt er til staðar, sem og gott samstarf heimilis og skóla og jafnvel lyfjagjöf getur barn og ungmenni með ofvirkni átt dásamlegt og innihaldsríkt líf. Börn og ungmenni með ofvirkni eru nefnilega ekki sjaldgæf, skrítin, óalandi eða óferjandi. Þau eru stór hópur allskonar barna og ungmenna með fjölbreytta hæfileika og áhugamál sem vilja einfaldlega tilheyra og fá svigrúm og tækifæri til að vera viðurkennd eins og þau eru. Að samfélagið gefi sér tíma til að fræðast og taka tilliti til þeirra þarfa. Að býsnast yfir fjölda greininga hjálpar engum. Samfélagið og skólakerfið er stöðugt að reyna að koma til móts við þennan hóp en miklu betur má ef duga skal. Hraði samfélagins og uppbygging þess, mikil kyrrseta, óhollara mataræði og mikið áreiti bæði félagslegra samskipta og miðla, krefst þess að hugað sé enn frekar að þessum hópi barna svo þau þroskist og dafni í takt við eigin þarfir. Kannski erum við upplýstari um það í dag að lyf geta gert gagn og hjálpað til við að afrugla taugakerfi sem eru komin að eða yfir þolmörk. Að lyf geti hjálpað til á meðan verið er að ná jafnvægi og koma lífinu í einhvern takt eða þurfi að vera til staðar ævilangt allt eftir þörfum hvers og eins. Það ræður enginn því hvernig taugakerfi viðkomandi er samansett en að gagnrýna aðferðir og lyf sem gera ofvirkum kleift að lifa lífi sínu með meiri reisn, sjálfstrausti og sjálfstjórn er vanhugsað. Það sem einkennir einstaklinga með ofvirkni er oft frumkvæði, áræðni til að prófa nýja hluti og þor til að taka áhættu. Kraftur, mælska, listfengni, þrauseigja og forvitni ásamt hraðri og skapandi hugsun, innsæi og ímyndunarafli eru líka einkenni ofvirkni sem auðga og dýpka þekkingu og lausnaleit. Ofvirkni getur nefnilega verið ofurkrafturinn sem þarf til að ná langt og framkvæma án hiks og hugmyndirnar geta orðið svo ótal margar. Þegar kemur að því að virkja þær þarf viðkomandi oft stuðning og þar þarf að huga að styrkleikum og áhugamálum, samskiptum og félagslegri stöðu. Góð og raunsæ sjálfsmynd er forsenda velgengni í lífinu og lykilatriði allra er að fá tækifæri til að upplifa sigra í daglegu lífi. Skammir og neikvætt viðmót brýtur sjálfsmyndina niður og eykur hættu á kvíða og depurð sem einmitt hrjáir of mörg börn í dag. Verum góðar fyrirmyndir, fræðumst og tökum tillit til fjölbreyttra þarfa og verum þannig hluti af styðjandi samfélagi fyrir öll börn. Börn með ofvirkni augða og hressa, bæta og kæta, fái þau styðjandi umhverfi og viðurkenningu á því að þau eru frábær einmitt eins og þau eru. Búum svo um hnútana að þegar fullorðinsárin taka við og fólk með ofurkrafta fer út í lífið liti það heiminn fjölbreyttum litum, fullt sjálfstrausts og með sterka sjálfsmynd. Því eins og segir í áherslum okkar Vinstri grænna; tækifæri framtíðar byggjast á að við öll getum ræktað hæfileika okkar, ekki má líða mismunun á fólki og síðast en ekki síst er það hlutverk opinberrar þjónustu, mennta- og velferðarkerfis að stuðla að jöfnuði og félagslegu réttlæti fyrir alla íbúa þessa lands. ADHD samtökin halda úti blómlegri starfsemi þar sem öll geta sótt sér fræðslu og ráðgjöf er varðar hið fjölbreytta róf ofvirkni/ADHD og margvíslegar birtingarmyndir þess. Við mælum eindregið með að kynna sér einkenni, úrræði og námskeið fyrir börn og annað fólk með ofvirkni á heimasíðu samtakanna. Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir, leik- og grunnskólakennari, oddviti VG í Suðurkjördæmi og stjórnarkona í VG. Álfhildur Leifsdóttir, grunnskólakennari, oddviti VG og óháðra í Skagafirði og formaður sveitarstjórnarráðs VG.