Skoðun

María Rut og sam­keppnis­hæfnin

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Tvær stórar skýrslur voru unnar fyrir Evrópusambandið á árinu 2024 um stöðu efnahagsmála innan þess. Helzta niðurstaða skýrslanna, sem unnar voru af Enrico Letta, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, og Mario Draghi, fyrrverandi seðlabankastjóra Evrópusambandsins, var sú að samkeppnishæfni þess færi jafnt og þétt minnkandi miðað við önnur markaðssvæði og að sambandið hefði dregizt mjög aftur úr. Er dregin upp mjög dökk mynd í þeim efnum.

„Takist ekki að auka framleiðni innan Evrópusambandsins munum við neyðast til þess að velja og hafna. Við munum ekki geta orðið í senn leiðandi á tæknisviðinu, leiðarljós ábyrgðar í loftlagsmálum og forystuafl á alþjóðasviðinu. Við munum ekki geta fjármagnað velferðarkerfi okkar. Við munum þurfa að draga úr einhverjum, ef ekki öllum, metnaðarfullum markmiðum okkar,“ segir meðal annars í skýrslu Draghis. Framtíðarhorfurnar væru ekki beinlínis heillandi.

Varað var við því í skýrslunni að Evrópusambandið stæði frammi fyrir áskorun í þessum efnum sem varðaði hreinlega sjálfan tilvistargrundvöll þess. Auka þyrfti verulega framleiðni innan þess. Efnahagsleg hnignun sambandsins hefði ekki sízt komið niður á heimilum í ríkjum þess. Jafnvel þó þau leggðu meira til hliðar en bandarísk heimili hefði fjárhagsleg staða þeirra frá árinu 2009 einungis styrkzt um þriðjung af því sem raunin hefði verið í Bandaríkjunum.

„Hlutdeild Evrópusambandsins í heimsbúskapnum hefur dregizt saman undanfarna þrjá áratugi þar sem staða þess á meðal stærstu hagkerfa heimsins hefur versnað hratt samhliða uppgangi asískra hagkerfa,“ segir í skýrslu Letta sem kom út í apríl 2024 og fjallaði einkum um innri markað sambandsins. Efnahagslega hefði Evrópusambandið sömuleiðis dregizt verulega aftur úr Bandaríkjunum. Jafnvel án tillits til asískra hagkerfa hefði sú eftir sem áður verið raunin.

„Hagkerfin tvö voru svipuð að stærð árið 1993. Hins vegar jókst landsframleiðsla á mann um 60% í Bandaríkjunum á milli 1993-2022 en innan við 30% innan sambandsins,“ segir einnig. Fyrirtæki í Evrópusambandinu væru eftirbátar fyrirtækja í ríkjum utan þess. Einkum í Bandaríkjunum og Kína. Forskot þeirra hefði mikil áhrif á nýsköpun, framleiðni og atvinnusköpun innan sambandsins og þar með öryggi þess og möguleika til þess að hafa áhrif í framtíðinni.

Forystumenn Evrópusambandsins höfðu uppi stór orð þegar skýrslur þeirra Draghis og Lettas komu út um að nú yrði snúið af braut efnahagslegrar stöðnunar. Einu og hálfu ári eftir útkomu skýrslu Draghis og nær tveimur árum eftir útkomu skýrslu Lettas hefur staðan hins vegar haldið áfram að versna. Þetta er enda hvorki í fyrsta né annað sinn sem skrifaðar eru skýrslur með slíkum varnaðarorðum og í kjölfarið lofað bót og betrun af forystumönnum þess.

Málin hafa þróast með þessum hætti þrátt fyrir lága vexti á evrusvæðinu sem ætlað hefur verið að reyna að koma stöðnuðu efnahagslífi svæðisins, með tilheyrandi litlum eða engum hagvexti, lítilli framleiðni og víða miklu atvinnuleysi, einkum á meðal ungs fólks, af stað á nýjan leik. Það er ástæða fyrir því að hérlendir Evrópusambandssinnar tala allajafna ekki um aðrar hagstærðir en vextina sem þó eru alls ekki birtingarmynd heilbrigðs efnahagsástands.

Kanzlari Þýzkalands, Friedrich Merz, sagði nú síðast í ræðu á fundi Alþjóðaefnahagsráðsins á dögunum að Evrópusambandið hefði átt að verða samkeppnishæfasta hagkerfi í heimi. „Í staðinn erum við orðin heimsmeistarar í of miklu reglugerðafargani. […] „Bæði Þýzkaland og sambandið hafa sólundað gríðarlegum tækifærum fyrir vöxt á undanförnum árum með því að draga lappirnar varðandi umbætur og skerða óhóflega frumkvöðlafrelsi og persónulega ábyrgð.“

Við Íslendingar höfum ekki farið varhluta af þessu vegna EES-samningsins. Sífellt fleiri aðilar í íslenzku atvinnu- og viðskiptalífi hafa kvartað opinberlega yfir vaxandi íþyngjandi regluverki frá Evrópusambandinu sem taka hefur þurft upp hér á landi vegna samningsins og sem drægi úr samkeppnishæfni landsins. Fyrr í vikunni sagði María Rut Kristinsdóttir, þingmaður Viðreisnar, í Silfrinu að við þyrftum að ganga í sambandið til að auka samkeppnishæfni Íslands. Einmitt.

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).




Skoðun

Sjá meira


×