Erlent

Trump segir Pútín hafa sam­þykkt hlé á á­rásum á Kænugarð

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þessi mynd er frá því í ágúst í fyrra en miðlar vestanhafs greindu frá því í gær að Trump hefði látið hengja myndina sem hann heldur á, af sér og Pútín, upp á áberandi stað í Hvíta húsinu.
Þessi mynd er frá því í ágúst í fyrra en miðlar vestanhafs greindu frá því í gær að Trump hefði látið hengja myndina sem hann heldur á, af sér og Pútín, upp á áberandi stað í Hvíta húsinu. Getty/Chip Somodevilla

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í gær að Vladimir Pútín Rússlandsforseti hefði heitið því að gera tímabundið hlé á loftárásum sínum á Kænugarð, sem hafa miðað að því að valda skemmdum á orkuinnviðum og svipta íbúa hlýju í vetrarkuldanum.

Vólódimír Selenskí Úkraínuforseti og Friedrich Merz, kanslari Þýskalands, hafa fagnað ummælum Trump en þau hafa ekki verið staðfest af stjórnvöldum í Rússlandi né hafa fregnir borist af því að árásunum hafi raunverulega linnt. „Við vonum að Bandaríkin geti látið þetta verða að veruleika,“ sagði Selenskí og þakkaði Trump fyrir milligöngu hans í málinu.

Spáð er allt að 30 stiga frosti í Úkraínu á næstu dögum.

Þreifingar standa enn yfir í þríhliða viðræðum Úkraínu, Bandaríkjanna og Rússlands um varanlegan frið. New York Times hefur eftir einum ráðgjafa Selenskís að Úkraínumenn hafi óskað eftir því við Rússa í síðustu viku að þeir gerðu tímabundið hlé á árásum og að Rússar hefðu samþykkt en ekki skriflega.

Þeir hafa staðið í umfangsmiklum árásum síðustu daga og vikur, sem hefur leitt til þess að þúsundir heimila í Kænugarði hafa verið án rafmagns. Eftir því sem næst verður komist áttu þó engar stórar árásir sér stað í gær. Trump sagðist sjálfur hafa ítrekað ósk Úkraínumanna við Pútín og að hann hefði samþykkt að verða við henni. Það vekur þó athygli að engar fregnir hafa borist af samtali milli leiðtoganna tveggja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×