Skoðun

Við þurfum betri döner í Reykja­vík

Björn Teitsson skrifar

Einn vinsælasti skyndibiti Evrópu er döner kebap. Augljóslega á sá réttur ættir sínar að rekja til Tyrklands en sú útgáfa sem hefur notið mestrar hylli var fundinn upp í Vestur-Þýskalandi í kringum 1970. Það er aðeins á reki hvort fyrsta útgáfan af „Döner im Brot“ hafi birst í Reutlingen í Baden-Württemberg eða í svokallaðri „Imbiss“-sjoppu við Zoologischer Garten í Vestur-Berlín sem var rekin af Kadir Nurman, tyrkneskum innflytjanda sem var einn af hundruðum þúsunda „gestaverkamanna“ sem áttu sinn þátt í að knýja áfram vesturþýska efnahagsundrið á seinni hluta 20. aldar. Í dag eru vinsældir dönersins í Þýskalandi slíkar að þar í landi eru um 18 þúsund döner-staðir, en til samanburðar eru veitingastaðir McDonalds-keðjunnar „einungis“ um 1400 talsins. Þeir Íslendingar sem hafa dvalið eitthvað í Þýskalandi þekkja og kunna líklega mjög vel að meta döner. Og spyrja sig um leið eftir að aftur til Íslands er komið: „Hvers vegna er ekki svona góður döner hér?“ Sjálfur hef ég gengið með þá hugmynd í maganum að best væri að bjóða einfaldlega Þjóðverjum af tyrkneskum uppruna að koma hingað til lands til að reka slíka staði. Þeir einir sem hafa reynsluna og tilfinninguna fyrir þessu meistaraverki matarsögunnar gætu framkallað slíka snilld hér. Þessi viðskiptahugmynd er hér með lögð á borðið fyrir hvern sem vill.

Af hverju getum við ekki rekið leikskólakerfi sem er ómyglað?

Verandi miðaldra maður sem býr í Reykjavík, með háskólapróf og Volvo á bílastæðinu, þekki ég marga Íslendinga sem hafa búið í Svíþjóð. Persónulega myndi ég aldrei nenna að búa þar. Þjóð sem er sjúk í reglur og býr yfir, að því er virðist, algeran fanatisma í að „hafa ekki of gaman“, þjóð þar sem meðalmanneskjan er óþolandi falleg og jafnaldrar mínir af sama kyni klæðast jafnvel léttum ullarpeysum sem þeir binda yfir axlir með póló-bol undir, já, svoleiðis þjóð getur varla verið skemmtileg. En eitt hafa þeir þó. Gott leikskólakerfi. Þar sem allt virðist ganga upp og aldrei er vesen. Ég hef heyrt óþolandi mikið um þetta frá, tja, öllum sem ég þekki sem hafa búið í Svíþjóð.

Í vetur hef ég verið eitt fjölmargra foreldra sem hefur þurft að þola lokun leikskóla innan hverfis. Raunar var leikskóli dóttur minnar beinlínis í bakgarðinum hjá mér, í um 100 metra fjarlægð frá heimilinu. Það voru lífsgæði sem verða ekki metin til fjár. Síðan Hagaborg var lokað hef ég hins vegar ekki séð einn einasta einstakling vinna í því að gera húsið aftur starfhæft. Í vor verður ár síðan byggingunni var lokað. Á meðan hafa börnin sem þar voru verið send út og suður. Eða austur réttara sagt. Í Ármúla. Og þessvegna byrja dagarnir mínir í umferðinni, aukabíll á götum borgarinnar, þrátt fyrir að ég vilji með engu móti vera í umferðinni. Leikskólamál eru ekki aðeins menntamál. Þau eru velferðarmál, þau eru greinilega samgöngumál. Við erum að tefja umferð með því að hafa þessa hluti í ólagi. Það er ótrúleg skerðing á lífsgæðum að sóa klukkutíma eða tveimur á dag í umferð þegar þú hefur tekið allar ákvarðanir í lífi þínu til þess einmitt að sleppa við að sóa tíma í bílaumferð.

Af hverju njótum við ekki þeirra lífsgæða sem þétting byggðar átti að færa okkur?

Ég er mikill fylgjandi þess að nýta reiti innan borgarmarkanna sem eru vannýttir, gömul iðnaðarsvæði sem hafa sinnt sínum tilgangi, eða bílastæðaflæmi á besta stað, til að byggja upp íbúðarhúsnæði í bland við verslun og þjónustu. Þetta er stefna sem er hornsteinn allra bestu borga Evrópu og Norðurlanda sem við viljum bera okkur saman við, sem við viljum nálgast að lífsgæðum. Með góðum og traustum almenninngssamgöngum fjölgum við möguleikum okkar að komast á milli staða, og tala ekki um bætta innviði til að hjóla eða ganga. Þetta er ekki síst lýðheilsumál eins mikið og þetta er lífsgæðamál. Að hreyfa sig, að hitta fólk, gott fyrir líkama og sál. Að styrkja hverfin með bættri nærþjónustu og fjölbreyttari verslun og afþreyingu, svo fólk þurfi ekki sífellt að reiða sig á einkabíl í hverju sem það gerir. Auðvitað þarf sumt fólk að gera það eða kýs það hreinlega. Það er líka fínt. En margt fólk væri mjög gjarnan til í að labba í bakaríið á morgnana, fara á kaffihús um helgar eða geta farið í klippingu innan hverfis. Þetta hefur til dæmis gengið gengið afar vel í Svíþjóð, en þar eru allar helstu borgir með sömu áherslur í borgarþróun og hafa verið í Reykjavík undanfarinn hálfa annan áratug. En þetta hefur ekki gengið nógu vel hjá okkur. Á þéttingarreitum vantar grunninnviði á borð við skóla og leikskóla, aðstöðu til íþróttaiðkunar fyrir börn og unglinga, aðgengi að almenningssamgöngum. Það hefur vantað kaupmanninn á horninu og kaffihúsið eða barinn á jarðhæð. En samt eru þetta lífsgæði sem við þráum flest.

Flytjum inn dönerstarfsmenn

Undanfarið hefur umræðan um borgarmál verið á leiðinni í ógöngur. Hún virðist að mestu snúast um bílastæði þrátt fyrir að engin borg í Evrópu bjóði upp á jafnmörg bílastæði og einmitt Reykjavík. Og það er greinileg þreyta í fólki, það er þreyta í borgarstjórn. Bæði í meirihlutanum, sem og minnihlutanum. Allt þetta þras og allar þessar falsfréttir, sem verða að allsherjar pirringi sem fyllir sístækkandi menningargjá sem bræðibeitur fjölmiðla magna svo upp.

Ég er í öllu falli með tillögu að lausn. Ég ætla (því miður) ekki að flytja inn dönerstarfsmenn. Ég ætla ekki að flytja inn sænska velferðarkerfið heldur. En ég ætla að kjósa Pétur Marteinsson í prófkjöri Samfylkingarinnar því hann þekkir sænska velferðarkerfið nógu vel til að velja þaðan það besta og innleiða í Reykjavík. Hann þekkir að vera uppbyggingar- og rekstraraðili í Reykjavík og þekkir hvað þarf innan hverfa til að skapa raunveruleg gæði og kann þar með einnig að taka samtalið við aðra uppbyggingaraðila til að stefna að því sama. Hann hefur komið fram af einstökum heilindum og heiðarleika í sinni prófkjörsbaráttu, aldrei mælt slæmt orð um aðra frambjóðendur þótt á móti blási, heldur haldið sig við jákvæða og uppbyggilega umræðu þar sem málefnin eru í fyrirrúmi. Hann var fyrirliði í fótbolta og talar sem slíkur. Sem góða týpan af fyrirliða, sem skammar ekki heldur hvetur áfram. Og það er akkúrat þannig týpa af fyrirliða sem ég er viss um að Reykjavík hefur gott af. Þannig gæti samtalið milli borgarbúa, borgarstjórnar og uppbyggingaraðila jafnvel endað með tyrknesk-þýskum dönerstað á einhverju góðu horni. Og hver myndi ekki vilja það?

Höfundur er borgarfræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×