Innlent

„Í mínum huga eru þetta klárar æru­meiðingar“

Árni Sæberg skrifar
Vilhjálmur gætir réttinda Barböru í málinu.
Vilhjálmur gætir réttinda Barböru í málinu. Vísir/Anton Brink

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Barböru Björnsdóttur héraðsdómarar í ærumeiðingamáli Margrétar Friðriksdóttur, segist telja ummæli Margrétar klárar ærumeiðingar. Hún kallaði Barböru meðal annars „lausláta mellu“. Þá gagnrýnir hann hversu nærri var gengið Barböru í vitnaleiðslu.

Aðalmeðferð í máli Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á hendur Margréti Friðriksdóttur, ritstjóra vefsins Frettin.is, fór fram í dag. Margrét er ákærð fyrir ærumeiðingar í garð dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur, Barböru Björnsdóttur, sem hafði sakfellt hana fyrir hótanir.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson gæti réttinda Barböru í málinu og Berghildur Erla Bernharðsdóttir fréttamaður ræddi við hann að lokinni aðalmeðferð þess.

„Í mínum huga eru þetta klárar ærumeiðingar og ég treysti því að héraðsdómur muni komast að þeirri niðurstöðu og ákærða í málinu verði dæmd til refsingar fyrir brot sín,“ segir hann.

Ótækt að fólk sé dregið fyrir dóm til að greina frá einkamálum

Meðal þess sem Margrét byggir varnir sínar á er að Barbara hafi átt í ástarsambandi við annan dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur, Símon Sigvaldason. Verjandi Margrétar spurði Barböru hvort þessar fullyrðingar væru réttar.

„Nei, og ég vil taka það fram að mér finnst þessi spurning fullkomlega óviðeigandi hérna,“ er haft eftir Barböru í frétt Ríkisútvarpsins af réttarhöldunum.

Hvernig fannst þér gengið að fólki í vitnaleiðslum í morgun, meðal annars þínum umbjóðanda?

„Hún gaf bara mjög góða skýrslu í málinu sem ég reikna með að verði lögð til grundvallar. Hins vegar tel ég að það sé auðvitað með öllu ótækt að það sé verið að draga fólk fyrir dóm til þess að skýra frá einhverjum einkamálum þess sem að hefur ekkert með sakarefni málsins að gera, eins og var í þessu tilviki. Þau vitni sem að gáfu skýrslu í málinu gátu ekki varpað neinu ljósi á sakarefnið eins og það lá fyrir Héraðsdóm með framburðum sínum. Þess vegna hefði átt að láta það ógert,“ segir Vilhjálmur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×