Skoðun

Kerfi sem kosta skatt­greiðendur

Sölvi Breiðfjörð skrifar

Mig langaði að koma með pólitískan pistil í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna í maí.

Ekki til að benda á einstaklinga eða flokka, heldur til að ræða kerfi sem hafa þróast í borginni og hvernig þau hafa ítrekað leitt til bruðls á almannafé. Þetta eru mál sem margir finna fyrir í daglegu lífi, en fá sjaldan rými í opinni umræðu.

Oft er talað um bruðl eins og það sé afleiðing slæmra ákvarðana einstakra starfsmanna eða kjörinna fulltrúa. Raunveruleikinn er þó sá að vandinn er kerfislægur. Bruðl verður til þegar hvatar eru rangir og kerfi umbuna eyðslu fremur en ábyrgð.

Byrjum á borgarstjórn og tengdum störfum.

Borgarfulltrúar í Reykjavík fá föst mánaðarlaun. Samkvæmt gildandi kjörum eru grunnlaun borgarfulltrúa rúm 1,1 milljón króna á mánuði.

Ofan á það bætist föst starfskostnaðargreiðsla, um 80 þúsund krónur á mánuði.

Þetta eitt og sér væri eðlilegt.

En ofan á þessi föstu laun bætist kerfi álagsgreiðslna. Borgarfulltrúar sem sitja í borgarráði fá 25 prósent álag á laun sín. Sama álag gildir fyrir formennsku í fastanefndum. Forseti borgarstjórnar fær einnig 25 prósent álag og formaður borgarráðs fær allt að 40 prósent álag. Borgarfulltrúar sem sitja í þremur eða fleiri fastanefndum fá einnig 25 prósent álag.

Þetta þýðir að borgarfulltrúi með eitt slíkt álag getur verið með heildarlaun upp á um 1,5 milljónir króna á mánuði. Með tveimur álagsliðum geta launin farið í um 1,8 milljónir króna á mánuði. Í einstaka tilfellum hafa heildarlaun borgarfulltrúa, þegar allt er talið með, verið nálægt tveimur milljónum króna á mánuði, án þess að stjórnarlaun í borgarfyrirtækjum séu tekin með.

Til samanburðar eru laun borgarstjóra um 2,6 milljónir króna á mánuði.

Að sitja í nefndum, ráðum og stjórnum er ekki aukavinna sem hefst eftir að daglegu starfi lýkur. Þetta er hluti af starfi borgarfulltrúa. Samt er kerfið þannig upp byggt að fleiri nefndir þýða hærri laun. Þetta skapar rangan hvata og er erfitt að réttlæta gagnvart skattgreiðendum.

Að mínu mati ætti þetta að vera einfaldara. Borgarfulltrúar ættu að fá föst laun sem endurspegla allt starfið, þar með talið nefndarsetu. Ekki ætti að greiða sérstaklega fyrir það að sinna þeim verkefnum sem eru hluti af kjörnu starfi.

Sama kerfishugsun birtist skýrt í rekstri stofnana borgarinnar.

Leikskólar Reykjavíkur fá árlega fjárveitingu. Opinber gögn sýna að stór hluti leikskóla og skóla fer reglulega fram úr fjárheimildum sínum, oft um 2 til 3 prósent og í sumum tilfellum mun meira. Á sama tíma er sjaldgæft að stofnanir skili raunverulegum afgangi.

Ástæðan er ekki slæmur rekstur. Ástæðan er kerfið. Ef stofnun skilar afgangi er raunveruleg hætta á að fjárveitingin verði lækkuð árið eftir. Afleiðingin er fyrirsjáanleg. Fyrir áramót er oft pantað inn til að klára fjárheimildir, ekki endilega af því að þörfin sé brýn, heldur af því að sparnaður er ekki umbunaður.

Í einkarekstri væri slíkt talið léleg stjórnun. Þar er afgangur merki um ábyrgð og góða stjórn. Í opinberum rekstri ætti það að vera nákvæmlega eins.

Þetta sama gildir um aðrar einingar borgarinnar, þar á meðal Gróðrastöðvar Reykjavíkur. Þar hefur verið bent á að fegrun og skreytingar séu stundum sýnilegri í ákveðnum hverfum en öðrum. Opinberar tölur um fegrunarverkefni og viðurkenningar sýna að miðsvæði borgarinnar hafa fengið mun meiri athygli en mörg úthverfi. Þetta hefur vakið gagnrýni og spurningar um jafnræði og forgangsröðun, sérstaklega í aðdraganda kosninga.

Þegar faglegar ákvarðanir fara að ráðast af tímasettningum kosninga erum við komin á hættulega braut.

Allt þetta á sér sameiginlega rót. Kerfi sem umbuna eyðslu, flækja launakerfi og draga óskýr mörk milli stjórnmála og rekstrar.

Lausnin er ekki flókin. Einfalt og gagnsætt launakerfi fyrir kjörna fulltrúa. Umbun fyrir sparnað í stað refsinga. Skýr aðgreining faglegra ákvarðana frá kosningabaráttu.

Að lokum má spyrja eina stóru spurninguna. Er ekki tímabært að ræða hvort núverandi skipulag sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sé orðið of dýrt og flókið. Hvort sameining Reykjavíkur og nærliggjandi sveitarfélaga gæti dregið úr tvíverknaði, einfaldað stjórnsýslu og skilað betri nýtingu almannafjár.

Bruðl er ekki óhjákvæmilegt. En það hættir ekki fyrr en við breytum kerfunum sem búa það til.

Höfundur er söluráðgjafi og fyrirtækjaeigandi.




Skoðun

Skoðun

32 dagar

Magnea Gná Jóhannsdóttir skrifar

Sjá meira


×