Erlent

Vance ætlar að sitja fundinn með Løkke og Rubio

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
J.D Vance ætlar að sitja fundinn.
J.D Vance ætlar að sitja fundinn. EPA/WILL OLIVER

Lars Lars Løkke Rasmussen utanríkisráðherra Danmerkur og Vivian Motzfeldt utanríkisráðherra Grænlands funda með Marco Rubio utanríkisráðherra Bandaríkjanna á morgun í Washington D.C og hefur J.D. Vance varaforseti einnig óskað þess að sitja fundinn.

Danska ríkisútvarpið greinir frá þessu. Þar segir að fundurinn fari því fram í Hvíta húsinu en Rasmussen ræddi málið við danska fréttamenn fyrir skömmu. Varaforsetinn verði því gestgjafi. Ráðherrann sat í morgun fund í utanríkismálanefnd danska þingsins vegna málefna Grænlands en líkt og komið hefur fram hafa bandarískir ráðamenn ítrekað lýst því yfir að þeir telji að Bandaríkin eigi að ná yfirráðum í landinu.

Danski miðillinn segir að það sæti mikilla tíðinda að varaforsetinn hafi óskað eftir því að sitja fundinn. Það auki mikilvægi hans til muna og sýni fram á alvarleika málsins. Vance hefur verið einn helsti gagnrýnandi Danmerkur í ríkisstjórn Trump og meðal annars sagt fullum fetum að Danmörk sé slæmur bandamaður Bandaríkjanna.

Rifjar danska ríkisútvarpið það upp þegar Vance tók Volodomír Selenskí Úkraínuforseta á teppið á fundi með Donald Trump Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu á síðasta ári. Løkke fari því líklega með þandar taugar á fundinn. Þá er einnig greint frá því að Troels Lund Poulsen varnarmálaráðherra Danmerkur hafi óskað eftir því að funda með Mark Rutte framkvæmdastjóra NATO á mánudag í Brussel.

Aðrir danskir miðlar fara einnig mikinn vegna þeirra tíðinda að Vance muni sitja fundinn. TV2 fullyrðir og hefur eftir Sofie Rud fréttaskýranda að þetta séu einfaldlega slæm tíðindi fyrir Danmörku. „Nú er eldvörpunni J.D. Vance bætt við í blönduna og hann gerður að gestgjafa, þannig það getur allt gerst.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×