Erlent

Lögðu hald á tíu tonn af kókaíni nærri Kanarí­eyjum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Tíu tonn af kókaíni komin til hafnar í Santa Cruz á Tenerife, spænsku eyjunni sem Íslendingar sækja mikið.
Tíu tonn af kókaíni komin til hafnar í Santa Cruz á Tenerife, spænsku eyjunni sem Íslendingar sækja mikið. Policía Nacional

Lögregluyfirvöld á Spáni hafa lagt hald á tæplega tíu tonn af kókaíni, sem voru falin innan um saltfarm flutningskips við Kanarí-eyjar.

Löggæsluhópur sem hefur rannsakað umfangsmikla kókaínflutninga frá Suður-Ameríku til Evrópu er sagður hafa bent á skipið, sem var að koma frá Brasilíu.

Skipið var um það bil 535 kílómetra frá Kanarí-eyjum þegar sérsveit réðist um borð og lagði hald á um það bil 300 pakkningar af kókaíni, sem höfðu verið grafnar í sendingu af salti.

Þrettán voru handteknir og skipið, sem hafði orðið uppiskroppa með olíu, dregið til hafnar í Tenerife.

Aðgerðin var samstarfsverkefni lögregluyfirvalda á Spáni, í Brasilíu, Bandaríkjunum og Bretlandi, auk yfirvalda í Frakklandi og Portúgal.

Lögregluyfirvöld á Spáni segja um að ræða stórt högg fyrir alþjóðleg glæpasamtök. Þá er þetta mesta magn kókaíns sem þau hafa lagt hald á á sjó en árið 2024 fundust þrettán tonn af efninu í gámasendingu frá Ekvador.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×