Innlent

„Miður að bensínhákum sé um­bunað“

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir að vel sé fylgst með breytingum á eldsneytisverði.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir að vel sé fylgst með breytingum á eldsneytisverði. vísir/Sigurjón

Bensínverð hefur lækkað um þriðjung eftir áramót en Neytendasamtökunum berast kvartanir um að verði hafi verið haldið uppi fyrir þann tíma. Formaður segir ósanngjarnt að bensínhákum sé umbunað á sama tíma og rekstrarkostnaður sparneytinna bíla hækkar.

Örtröð hefur verið á bensínstöð Costco í allan dag, líkt og sjá má í myndbandinu hér að neðan. Þar er enda ódýrasta bensínið og raunar hefur það ekki verið ódýrara frá árinu 2017, eða í um átta ár. 

Eftir verðbreytingu samhliða nýju kílómetragjaldi kostar bensínlítrinn þar 171 krónu. Fyrir áramót kostaði lítrinn 268 krónur og verðið lækkaði því um þriðjung á milli daga. Dýrasti bensínlítrinn á höfuðborgarsvæðinu er nú meðal annars á N1 í Borgartúni. Fyrir áramót kostaði hann 311 krónur, en nú tæpar 215 krónur.

Þrátt fyrir að verð á bensínlítra sé misjafnt milli stöðva virðist þetta meðalverðlækkun; í kringum þrjátíu og fimm prósent eða oft um níutíu til hundrað krónur. Í spá stjórnvalda var gert ráð fyrir að bensínverð myndi lækka um 89 til 105 krónur samhliða afnmámi bensíngjalds

Formaður Neytendasamtakanna segir lækkanir vissulega í samræmi við það sem stefnt var að. Félag íslenskra bifreiðaeigenda hefur þó bent á að neytendur eigi meira inni, þar sem verð hafi ekki lækkað í samræmi við lækkandi heimsmarkaðsverð fyrir áramót.

„Árvökulir neytendur eru alltaf í sambandi við okkur og það eru margir sem hafa bent okkur á þetta og við munum skoða það í samstarfi við þessi félög og stofnanir,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.

Gróði vegna lægra bensín- og díselverðs staldrar þó ekki lengi við í buddum landsmanna. 

Fyrsti gjalddagi vegna nýs kílómetragjalds er um næstu mánaðarmót. Nú þurfa ökumenn fólksbíla og jeppa sem eru léttari en 3,5 tonn, eða allt sem er minna en stór amerískur pallbíll, að greiða 6,95 krónur á hvern ekinn kílómetra. Breki segir að ítrekaðar athugasemdir hafi verið gerðar við að gjaldið sé jafn hátt fyrir Yaris og jeppa.

Löng röð var við bensínstöð Costco í dag enda hafa eflaust margir beðið fram yfir áramót með að fylla á bílinn. Ódýrasta bensínið er nú sem fyrr hjá Costco.vísir/Sigurjón

„Rekstrarkostnaður lítilla sparneytinna bíla er að hækka á meðan bensínhákar hagnast á þessum breytingum. Það er miður þegar við erum að reyna að draga úr brennslu jarðefnaeldsneytis að bensínhákunum sé umbunað á þennan hátt.“

Vonast þú enn til þess að þetta verði endurskoðað?

„Það er nú svo að svona innheimta á sköttum þekkist hvergi annars staðar og hún hlýtur þá að vera í þróun og taka einhverjum breytingum þegar reynir á hana. Við munum bara taka þátt í þeim breytingartillögum þegar þar að kemur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×