Innlent

Dæmdur fyrir líkams­árás í mat­salnum

Atli Ísleifsson skrifar
Frá Reykhólum að sumri. Myndin er úr safni.
Frá Reykhólum að sumri. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Vestfjarða hefur dæmt karlmann í þrjátíu daga fangelsi fyrir að hafa ráðist á annan mann í matsal vinnubúða verktakafyrirtækis við Gufufjörð í Reykhólahreppi í febrúar síðastliðnum.

Dómurinn var kveðinn upp á mánudaginn. Maðurinn var ákærður fyrir líkamsárás með því að hafa slegið með þremur hnefahöggum í andlit annars manns þannig að hann hlaut bólgu og mar á vörum, bólgu og blæðingu úr nefi og auk þess að tönn brotnaði. Þá hlaut maðurinn eymsli í kjálkum, í nefi, á vörum, tanngörðum, í hægri litla fingri og vinstri síðu.

Maðurinn játaði brot sitt skýlaust en samkvæmt gögnum hefur hann ekki áður hlotið dóm. Dómari mat hæfilega refsingu vera þrjátíu daga fangelsi en að fresta skyldi fullnustu refsingar og hún niður falla, haldi maðurinn almennt skilorð í tvö ár.

Lögmaður brotaþola fór auk þess fram á að ákærði skyldi greiða eina og hálfa milljón króna í miskabætur, en dómari mat hæfilega upphæð vera 200 þúsund krónur með vöxtum.

Maðurinn var jafnframt dæmdur til greiðslu um 300 þúsund króna í sakarkostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×