Neytendur

Lands­bankinn sýknaður af öllum kröfum í Vaxtamálunum

Árni Sæberg skrifar
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, og Ingvi Hrafn Óskarsson, lögmaður samtakanna.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, og Ingvi Hrafn Óskarsson, lögmaður samtakanna. Vísir/Vilhelm

Hæstiréttur hefur sýknað Landsbankann af öllum kröfum í tveimur málum sem neytendur höfðuðu á hendur bankanum vegna tiltekinna skilmála í lánasamningum. Hæstiréttur taldi skilmálana ólögmæta en að neytendur hefðu ekki orðið fyrir tjóni. „Í fljótu bragði er ég ósammála þessu,“ segir formaður Neytendasamtakanna.

Dómar þess efnis voru kveðnir upp klukkan 14 en hafa ekki verið birtir. Forsendur þeirra liggja því ekki fyrir að svo stöddu. Um síðustu tvö málin af hinum svokölluðu Vaxtamálum var að ræða. 

„Ég verð að segja að ég er hlessa. Það er ánægjulegt að skilmálarnir séu dæmdir ólögmætir en ég er hissa að það sé ekki talið vera neitt tjón,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna í samtali við fréttastofu.

Hæstiréttur hafði áður ógilt skilmála Íslandsbanka í samningi um óverðtryggt lán á breytilegum vöxtum, en sýknað af fjárkröfu, og sýknað Arion banka af öllum kröfum í tengslum við skilmála verðtryggðs láns.

Fór beint í Hæstarétt

Aðalmeðferð í þriðja málinu fór fram þann 3. desember. Það varðaði óverðtryggt viðbótarlán með breytilegum vöxtum og í því er deilt um sambærilega skilmála og í máli neytenda á hendur Íslandsbanka.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Landsbankanum í vil í mars síðastliðnum, einkum með vísan til þess að vextirnir sem lántakendur greiddu voru aldrei hærri en upphafsvextir miðað við lánasamninginn. Þannig nýtti bankinn sér aldrei umdeilda skilmála til þess að hækka vextina. Hæstiréttur veitti lántakendunum áfrýjunarleyfi til réttarins í byrjun júní, án þess að málið væri tekið fyrir í Landsrétti.

Hæstiréttur staðfesti dóm héraðsdóms.

Fallist á fjárkröfu í héraði

Loks var aðalmeðferð í máli tveggja lántakenda á hendur Landsbankanum á dagskrá þann 8. desember. Í því er deilt um skilmála tveggja verðtryggða skuldabréfa sem gefin voru út árið 2006 til forvera Landsbankans, til þess að gera upp skuld vegna yfirdráttar.

Landsbankinn var í héraði dæmdur til að endurgreiða lántakendum rúmlega 100 þúsund krónur hvorum um sig en Landsréttur sýknaði bankann. Rétturinn taldi það ekki hafa verið ósanngjarnt af bankanum að bera fyrir sig skilmála um vaxtabreytingar, þar sem vextir hefði iðullega verið lægri en upphafsvextir.

Hæstiréttur staðfesti dóm Landsréttar.

Athygli vekur að aðeins tvær vikur eru frá því að síðasta málið var flutt í Hæstarétti en rétturinn hefur fjórar vikur frá aðalmeðferð til þess að kveða upp dóm.


Tengdar fréttir

Eyða óvissu á lánamarkaði strax á mánudag

Hæstiréttur mun kveða upp seinni tvo dómana í Vaxtamálinu svokallaða á mánudag. Rétturinn hefur frest til annars vegar gamlársdags og hins vegar 5. janúar til þess að kveða upp dóma í málunum tveimur.

„Ég tel að þessi dómur hafi takmarkað fordæmisgildi“

Formaður neytendasamtakanna segir sýknu Arion banka af öllum kröfum neytenda í einu vaxtamálanna svokölluðu vera vonbrigði. Málið hafi þó takmarkað fordæmisgildi þar sem það hafi varðað lánasamning sem gerður var fyrir gildistöku núgildandi laga um neytendalán.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×