Innlent

Funduðu í 320 klukku­stundir og af­greiddu 37 frum­vörp

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Diljá Mist og Þórunn þingforseti í góðum gír á Alþingi fyrr í vetur, umkringdar samstarfsmönnum sínum.
Diljá Mist og Þórunn þingforseti í góðum gír á Alþingi fyrr í vetur, umkringdar samstarfsmönnum sínum. Vísir/Anton Brink

Fundir Alþingis á liðnu haustþingi voru 53 talsins og stóðu samtals í tæpar 320 klukkustundir. Af þeim 138 frumvörpum sem bárust þinginu urðu aðeins 37 að lögum og eru 101 frumvörp enn óútrædd. Þá voru samþykktar fimm þingsályktunartillögur af 66 og ráðherrar svöruðu 107 óundirbúnum fyrirspurnum.

Nú þegar Alþingi er komið í jólafrí hefur skrifstofa Alþingis tekið saman ýmsa tölfræði vegna 157. löggjafarþings sem lauk í gær. Þingið starfaði frá 9. september í haust til 18. desember og kemur þing aftur saman næst samkvæmt áætlun þann 14. janúar. Í tilkynningu frá skrifstofu þingsins segir að þingfundardagar hafi verið 48, en líkt og áður segir voru þingfundirnir þó fleiri, eða 53 talsins.

Meðallengd þingfunda var rétt tæpar sex klukkustundir en lengsti þingfundurinn stóð í um 13,5 klukkustundir. Lengst var umræðan um fjárlög sem stóð samtals í 44 klukkustundir og 54 mínútur.

Þá voru lagðar fram sex skriflegar skýrslur, þar af ein samkvæmt beiðni, en átta beiðnir um skýrslur til ráðherra komu fram á 157. löggjafarþingi. Þá flutti ráðherra eina munnlega skýrslu.

Frá þingsetningarathöfn í september.Vísir/Anton Brink

„Fyrirspurnir á þingskjölum voru samtals 155. Fyrirspurnir til munnlegs svars voru 14 og hefur sjö þeirra verið svarað en ein var kölluð aftur. 141 skrifleg fyrirspurn var lögð fram og hefur 71 þeirra verið svarað. 70 biðu svars er þingi var frestað,“ segir meðal annars í tilkynningunni. Þá fóru fram tíu sérstakar umræður og samtals hafa verið haldnir 192 fundir í fastanefndum og einn opinn nefndarfundur.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, forseti Alþingis, ávarpaði þingið þegar því var frestað í gær. Í ávarpi sínu vék Þórunn máli sínu meðal annars að kvennréttindabaráttu á Íslandi, rifjaði upp fyrstu alþingiskosningarnar árið 1844 og stofnun Alþingis árið 930. Um leið þakkaði hún þingheimi fyrir samstarfið í vetur, óskaði þeim gleðilegrar hátíðar og kvaðst hlakka til að hitta samstarfsfólkið aftur þegar þing kemur aftur saman í janúar.

„Það má með sanni segja um þá þróun í átt til lýðræðis og jafnréttis sem íslenskt samfélag hefur notið góðs af um langt skeið að okkur hefur vissulega miðað fram á við og erum framarlega í flokki á alþjóðavísu. Þar á Alþingi stóran hlut að máli sem löggjafi samfélagsins sem í senn mótar reglur þess og skyldar okkur öll til að hlíta þeim. Við þingmenn erum sérstaklega skuldbundin Alþingi og starfsemi þess. Kjósendur hafa trúað okkur fyrir því meðan kjörtímabilið varir. Það er á ábyrgð okkar allra að sjá til þess að þingið sé starfhæft og að reglur um starfsemi þess séu virtar þannig að það gegni hlutverki sínu. Það er fyrir öllu,“ sagði Þórunn meðal annars í ávarpi sínu sem sjá má í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

Þingflokkur Miðflokksins birti jólalega mynd af sér á samfélagsmiðlum í gær í tilefni af jólafríi. Sigríður Andersen fremst í flokki, en hún flutti ávarp fyrir hönd þingmanna við þingfrestun í gær.Facebook/Miðflokkurinn

Þá flutti Sigríður Á. Andersen, þingflokksformaður Miðflokksins, jólakveðju fyrir hönd alþingismanna. 

„Þingstörfin hafa verið fyrirsjáanleg í flesta staði. Bæði ríkisstjórn og stjórnarandstaða hafa lagt fram fjölda þingmála og í þeirri málstofu sem Alþingi er er eðlilegt að margir kalli eftir orðinu. Til að þingstörfin gangi greiðlega þarf sterka verkstjórn. Þingmenn hafa almennt þykkan skráp í því orðaskaki sem stjórnmálunum fylgir. Það á líka við hér í þingsal og það er viðbúið að sá sem stýrir dagskrá hverju sinni beri þess merki. Falli þung orð í hita leiksins þá fennir yfir þau svo lengi sem forseti er hlutlaus í störfum sínum og þar með forseti þingsins alls,“ sagði Sigríður meðal annars, en ávarp hennar má sjá í heild sinni hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×